Hefur Ísland tekið yfir meirihluta löggjafar ESB?

Hjörtur J. Guðmundsson, stjórnarmaður í Heimssýn, ritaði grein á fréttavefinn Amx.is 8. september sl. þar sem hann segir að Ísland hafi alls ekki tekið yfir meirihluta lagasetningar Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eins og t.a.m. kommissar stækkunarmála sambandsins, Olli Rehn, hefur haldið fram í samtölum við erlenda fjölmiðla. Hjörtur bendir á að slíkar fullyrðingar gangi einfaldlega ekki upp sé málið skoðað nánar. Þannig hlaupi heildar löggjöf Evrópusambandsins á tugum þúsunda lagagerða á sama tíma og heildar löggjöf Íslands, lög og reglugerðir, eru aðeins um 5.000 talsins.

Orðrétt segir í grein Hjartar: 

“Heildar lagasetning Evrópusambandsins er talin vera í kringum 30 þúsund gerðir. Heildarfjöldi íslenzkra lagagerða er hins vegar aðeins í kringum 5 þúsund. Þar af eru um eitt þúsund lög en afgangurinn er reglugerðir. Þetta þýðir einfaldlega að jafnvel þó öll íslenzk löggjöf kæmi frá sambandinu væri hún minna en 20% af heildar lagasetningu þess. Hvernig er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi þegar tekið upp a.m.k. 2/3 hluta lagasetningar Evrópusambandsins?”

Heimild:
Hefur Ísland tekið upp meirihluta lagasetningar ESB? (Amx.is 08/09/09)