Heimssýn á Vestfjörðum stofnað

Stofnfundur Heimssýnar á Vestfjörðum var haldinn á Hótel Ísafirði 26. september sl. þar sem rætt var um Ísland og Evrópusambandið. Illugi Gunnarsson, alþingismaður, hélt framsögu rakti sýn sína á aðildarumsókn ríkisstjórnarinnar að sambandinu og var ennfremur farið yfir aðdraganda umsóknarinnar. Fjörugar umræður sköpuðust og fjöldi fundarmanna tók til máls eftir framsögu Illuga. Fundarstjóri var Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi á Ísafirði.

Eftirtaldir voru kjörnir í fyrstu stjórn Heimssýnar á Vestfjörðum: Ragna Magnúsdóttir, Bolungarvík, Lýður Árnason, Bolungarvík, Björn Birkisson, Botni Súgandafirði og varamenn: Hildur Halldórsdóttir, Ísafirði, Svava Rán Valgeirsdóttir, Suðureyri, Gísli Jón Kristjánsson, Ísafirði. 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á stofnfundinum og send fjölmiðlum:

“Heimssýn á Vestfjörðum, félag sjálfstæðissinna í Evrópumálum, skorar á Alþingi Íslendinga að láta nú þegar vinna að þýðingu á spurningalista Evrópusambandsins vegna aðildarumsóknar að ESB. Það er óforsvaranlegt að gera ekki öllum landsmönnum kleift að kynna sér á íslensku svo áhrifamikil málsatriði sem í spurningalistanum felast og snerta atvinnulíf og byggðamál um land allt. Tryggja verður að allir landsmenn hafi sömu möguleika til að afla sér upplýsinga og taka þátt í umræðu um þessi mál, óháð tungumálakunnátttu.”

Heimssýn hefur á undanförnum mánuðum stofnað svæðisfélög víða á landinu.