Heimssýn hvetur til þess að viðræðum við Evrópusambandið verði formlega hætt

Frá framkvæmdastjórn Heimssýnar:

Heimssýn – hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum hvetur stjórnarflokkana til þess að standa við stefnu sína um að hætta formlega aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið. Heimssýn hvetur einnig utanríkisráðherra til þess að sýna áfram staðfestu í málinu.

Nú hefur verið sannað að um er að ræða aðlögunarferli en ekki könnunarviðræður eins og oft hefur verið haldið fram. Sú staðreynd að IPA-styrkirnir hafa verið stöðvaðir af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um leið og ferlið var stöðvað sýnir að þeir voru ætlaðir til þess   að laga íslenska stjórnsýslu að lögum og reglum sambandsins.

Enn fremur segir Evrópusambandið sjálft að um aðlögunarferli er að ræða. Evrópusambandið hefur gefið út rit um stækkunarstefnu sambandsins. Þar segir  um meintar „aðildarviðræður“:

„Hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarsamningaviðræður miða fyrst og fremst við  forsendur og tímasetningu fyrir samþykkt, framkvæmd og beitingu umsóknarríkis á Evrópusambandsgerðum  – um það bil 100.000 blaðsíðum. Þessar gerðir eru ekki umsemjanlegar. Fyrir umsóknarríki snýst þetta í grundvallaratriðum um það að fallast á hvenær og hvernig skuli innleiða reglur og starfshætti Evrópusambandsins.[1]

Á þessum texta sést að hér er um hreinar og klárar aðlögunarviðræður að ræða, eins og framkvæmdastjórn ESB hefur staðfest með því að fella niður IPA-styrkina.

Heimssýn áréttar að það beri að hætta viðræðum formlega við Evrópusambandið sem fyrst.[1] The term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 100,000 pages of them. And these rules (also known as the acquis, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.

http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf – bls. 9