Hrekkur evra eða stekkur ESB?

Blaðamenn undirbúa grafskrift evrunnar. Edmund Conway á Telegraph segir tvær útgáfur minningarorða evru mögulegar. Fyrri útgáfan tæki útgangspunkt að evran var dæmt fyrirtæki þegar frá upphafi vegna þess að myntbandalaginu fylgdu ekki miðstýrð fjármálavöld er væri ígildi fjármálaráðuneytis. Seinni útgáfan liti til þess hversu óhöndulega var staðið að kreppustjórnun af hálfu ESB og stóru ríkjanna.

CEBR-ráðgjafastofnunin í Bretlandi segir líkur á að evrusamstarfið lifi af kreppuna einn á móti fimm.

Stjórnarandstaðan í Þýskalandi segir nauðsynlegt að Þjóðverjar taki að einhverju marki þátt í að ábyrgjast skuldir annarra evruríkja. Merkel kanslari hefur hingað til neitað enda almenn andúð á slíku ráðslagi meðal Þjóðverja. Annað tveggja gerist: evran lætur undan síga eða stórt samrunaskref Evrópusambandsins verður tekið af hálfu Þjóðverja.