Hvað var Össur að gaufa í Brussel?

Enginn íslenskur ráðherra fyrr eða síðar hefur verið jafn kokhraustur og félagi Össur Skarphéðinsson. Margar myndir og viðtöl eru mér ofarlega í huga frá Utanríkisráðherratíð hans. Össur var brosandi og glaður og sigurviss á fundunum með þeim stóru í Brussel,já Stefáni Fúle og félögum. Össur sló gjarnan í neftóbakspontu sína og bauð í nefið á bæði borð og virtist oftast vera að sigra heiminn,með spekingslegum svip. Þó sáust sjónarhorn þar sem sett var ofan í við okkar mann ekki síst um form viðræðnanna. Ég var orðin dauðhræddur um að Össur með snilld sinni myndi innlima Ísland í ESB á einu augabragði. Viðræðurnar sjálfar hófust 17 júní 2010 á þjóðhátíðar- og frelsisdegi Íslands. Árni Páll Árnason var svo sigurviss og sagði að samningur myndi liggja fyrir eigi síðar en 2012 og þá væri hægt að gera útum þetta mál bætti hann við og undir það tóku margir stjórnarliðar og áköfustu ESB-sinnarnir. Þá átti  þjóðin við Íslendingar að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stóra mál,einfalt já eða nei. Þetta eru auðvitað svik við ummæli og fyrirheit nú væri eðlilegt að Össur Skarphéðinsson og samninganefndin skýrði frá því  hvað gerðist í viðræðunum? Hversvegna drógust þær á langinn? Hvað var Össur að gaufa í Brussel í þrjú ár. Einhverntíma hefði hann sjálfur talað um reykfyllt bakherbergi og brigður á fyrirheitum. Hvað gerðist Össur Skarphéðinsson?

„Engar undanþágur í kortunum.“ Hver skrökvar?

Í viðauka við skýrslu Hagfræðistofnunar segir Ágúst Þór Árnason við lagadeild Háskólans á Akureyri: „Miðaði hægt í stærstu hagsmunamálum Íslendinga, landbúnaði og sjávarútvegi,jafnvel þótt rík áhersla hafi verið lögð á það af Íslands hálfu að viðræður um þessa kafla hæfust sem fyrst.“ Ágúst segir síðan: „Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann.“ Svo segir Ágúst Þór þetta: „Ástæðan var sú að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans sem hefði verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland.“ Hann segir afleiðingarnar hefðu orðið þessar ef Össur og félagar hefðu fallist á kröfu ESB: „Þau hefðu falið í sér að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að Sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann.“ Þökk sé þeim að ég ætla,Jóni Bjarnasyni, Stein-grími J Sigfússyni  og Ögmundi Jónassyni á þetta gátu þeir ekki fallist,hafa sagt hingað og ekki lengra,eða hvað? Össur hinsvegar var staðráðinn ESB-sinni hann sagði í júlí 2009 þetta á  Alþingi: „Varðandi þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveg vil ég segja að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins,for-manni Framsóknarflokksins og hæstv. fjármálaráðherra um að við munum ekki fá neinar varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni og held því hins vegar fram að við þurfum ekki slíkar undanþágur.“ Svo mörg voru þau orð,Samfylkingin ætlaði í ESB hvað sem það kostaði,það ætluðu Vinstri-Grænir ekki. Er þeim Steingrími og Ögmundi meira í hug að æsa til orustu á Austurvelli en skýra frá því að þeir stöðvuðu viðræðurnar af þessum sökum? Með þessa kröfu ESB var ekki hægt að halda lengra. Viðræðurnar voru strand?

   Köllum fram svör við þessari spurningu.

Það áttu sem sé engar viðræður hvað þá samningaviðræður að eiga sér stað um sjávarútveginn? Hvað þá um  landhelgina sem barist var fyrir á síðustu öld með blóði svita og tárum,stærstu sigrar í sögu Íslands. Nú bið ég Össur Skarphéðins-son og þá Steingrím J Sigfússon og Ögmund Jónasson að skýra frá því hvort þessi úttekt Ágústs Þórs Árnasonar sé samkvæmt staðreyndum. Þeir hinir tveir síðarnefndu stefndu flokki sínum út í viðræðurnar til að fá upp á borðið rökin og staðreyndirnar,sögðu þeir og báðir andvígir aðild að ESB.  Jafnframt bið ég þá sem leiddu samningateymin formanninn Stefán Hauk Jóhannesson og fyrrum forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra Íslands Þorstein Pálsson að svara þessari stóru spurningu.

Guðni Ágústsson

Grein birt í Morgunblaðinu þann 12. mars 2014