Hvað varð um ESB-stefnu Samfylkingarinnar?

Allt frá því bankahrunið átti sér stað í byrjun október hafa ráðherrar, þingmenn og aðrir talsmenn Samfylkingarinnar stöðugt haldið því fram, að helsta – ef ekki eina – bjargráð okkar Íslendinga út úr efnahagskreppunni væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þegar bent var á að slíkt ferli tæki mörg ár stóð ekki á svörunum – bara það að hefja aðildarviðræður þýddi að traust á íslensku efnahagslífi myndi þegar í stað  vaxa og engan tíma mætti missa til að Íslendingar kæmust sem fyrst í skjól sambandsins og gjaldmiðils þess.

Ákafinn var mikill í desember…
Í desember færðist aukinn kraftur í umræður af þessu tagi. Þann 11. desember sagði t.d. þáverandi viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar í samtali við Viðskiptablaðið að ESB-umsókn væri „kjarninn í endurreisn íslensks efnahagslífs“ og flokkurinn vildi hefja „hraðferð í sambandið“ snemma á árinu 2009. Sömu sjónarmið komu fram hjá formanni flokksins í Vikulokum Rásar 1 þann 13. desember, en enginn gat velkst í vafa um að hún teldi stjórnarslit augljósa niðurstöðu færi svo að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki upp stuðning við ESB-aðild á landsfundi sínum, sem halda átti í lok janúar. Og ekki voru Ungir jafnaðarmenn í vafa um hvað þeir vildu; þeir sögðu í ályktun þann 16. desember að ekki kæmi til greina að Samfylkingin sæti í ríkisstjórn sem ekki stefndi á aðildarviðræður við ESB.

…en jókst upp úr öllu valdi í janúar
Fyrstu þrjár vikurnar í janúar leið varla sá dagur að ekki birtist fjölmiðlaviðtal eða blaðagrein eftir einhvern af forystumönnum Samfylkingarinnar þar sem því var ítrekað hótað – bæði leynt og ljóst – að stjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn yrði slitið ef sjálfstæðismenn tækju ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum á landsfundinum. Ef ekki reyndist samstaða um að hefja aðildarviðræður strax – ekki síðar en í febrúar – væru ekki forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi. Svo mikil var óþolinmæðin og æsingurinn að öllu öðru uppbyggingarstarfi þeirrar ríkisstjórnar var fórnandi til að ná þessu brýna máli fram.

En hvað gerðist í stjórnarmyndunarviðræðunum?
En hvað hefur síðan gerst? Samfylkingin kom sér að vísu út úr fráfarandi ríkisstjórn en þau skilyrði flokksins sem á steytti snerust ekki um Evrópusambandsaðild. Þar virtist á endasprettinum mestu máli skipta að Samfylkingin fengi forsætisráðuneytið í margboðaðri uppstokkun á ríkisstjórninni.

Og ekki setti flokkurinn Evrópumálin í forgang þegar kom að stjórnarmyndunarviðræðum við Vinstri græna. Þar virtust samningamenn flokksins ekki gera neinar kröfur til þess að skref yrðu stigin í átt til ESB-aðildar, hvað þá að aðildarviðræður yrðu hafnar strax í febrúar eins og áður hafði verið krafist í samstarfinu við sjálfstæðismenn. Þetta var allt í einu ekki lengur „lykilatriði í endurreisninni“ eins og formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði í Morgunblaðsgrein þann 15. Janúar eða „órjúfanlegur þátturí endurreisn og uppbyggingu íslensks efnahagslífs“ eins og þáverandi viðskiptaráðherra sagði í grein í sama blaði þann 20. janúar. Samfylkingin var greinilega ekki lengur á þeirri skoðun sem birtist í samtali Morgunblaðsins við iðnaðarráðherra þann 17. janúar, en þá kom fram að Samfylkingin vildi að vísu aðildarviðræður „þegar í stað“ en væri þó af þolinmæði sinni og mildi tilbúin að bíða fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok janúar.

Og hvað segir nú í verkefnaskránni?
Hafi Samfylkingarmenn gert einhverja minnstu tilraun til að þoka ESB-aðild áfram í viðræðunum við Vinstri græna er augljóst að þeim hefur ekkert orðið ágengt. Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er reyndar nokkrum línum varið í umfjöllun um Evrópumál og segir þar:

„Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Svo mörg voru þau orð. Sem sagt, ekki neitt nýtt. Ekkert skref í átt að ESB-aðild. Það eina sem þarna kemur fram er að Evrópunefnd verði falið að halda áfram því starfi, sem hún þegar vinnur að og áréttað var af fyrri ríkisstjórn um miðjan desember, og að stjórnarflokkarnir séu sammála um að aðild að ESB verði ekki ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það hefur verið yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landinu – hvers eins og einasta – í 15 ár.

Kom Steingrímur vitinu fyrir Samfylkinguna?
Nú fer því fjarri að ég harmi þessa umpólun Samfylkingarinnar. Ég hlýt að fagna því ef flokkurinn áttar sig nú allt í einu á því eins og aðrir að aðild að ESB og upptaka evrunnar eftir mörg ár leysir ekki þann efnahagsvanda sem við Íslendingar eigum við að stríða í dag. Maður hlýtur að spyrja hvort Steingrímur J. Sigfússon sé sá kraftaverkamaður, að hafa komið vitinu fyrir Samfylkinguna í þessum efnum á örfáum dögum. Kannski er það raunin. Spyr sá sem ekki veit.

En að manni læðist hins vegar sá grunur, að eitthvað annað skýri þetta. Hugsanlegt er að sú ofuráhersla sem Samfylkingarmenn hafa lagt á Evrópusambandsmálin á undanförnum mánuðum hafi átt sér einhverjar aðrar rætur en hugsjónir og sannfæringu. Lögðu þeir þessa áherslu á þessi mál til að skapa sér fjarlægð frá þáverandi samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn? Voru þeir hugsanlega að reyna að búa til málefnaleg ágreiningsefni til þess að undirbúa stjórnarslit? Voru þeir strax farnir að setja fram skilyrði sem þeir töldu víst að sjálfstæðismenn gætu ekki gengið að, eins og síðan gerðist hvað eftir annað á síðustu sólarhringum fyrri ríkisstjórnar? Eða er jafnvel hugsanlegt að talsmenn Samfylkingarinnar hafi talað svona mikið um Evrópumálin í sambandi við kreppuna, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekkert vitrænt fram að færa í efnahagsmálaumræðunni?

Fjölmiðlar leiti svara
En hverjar sem skýringarnar kunna að vera er mikilvægt að fjölmiðlamenn leiti alvöru svara hjá forystumönnum Samfylkingarinnar um þessi mál. Spyrji þá hvers vegna mál, sem var stórmál í stjórnarsamstarfinu við sjálfstæðismenn sé það ekki lengur. Spyrji hvort flokkurinn hafi breytt um stefnu eða hvort ekkert hafi verið að marka ofuráherslu þeirra á mikilvægi ESB-aðildar í sambandi við efnahagsuppbygginguna. Hvort það hafi raunverulega ekki verið sannfæring þeirra að nauðsynlegt væri að hefja aðildarviðræður þegar í stað – jafnvel nú í febrúar. Það er mikilvægt að fjölmiðlar spyrji þessara spurninga, því stjórnmálamenn eiga ekki að komast upp með hafa uppi stóryrði og digrar yfirlýsingar, nema einhver meining búi þar að baki.

Það væri tilvalið fyrir gagnrýna blaða- og fréttamenn, sem taka starf sitt alvarlega, að beina spurningum af þessu tagi til formanns og varaformanns Samfylkingarinnar. Ekki væri síður ástæða til að leita til þingflokksformannsins eða utanríkis- og iðnaðarráðherrans. Jafnvel mætti fá fram álit óbreyttra þingmanna á borð við Árna Pál Árnason, Björgvin G. Sigurðsson og Helga Hjörvar. Allir hafa þessir stjórnmálamenn verið óþreytandi á undanförnum mánuðum við að útlista fyrir þjóðinni hve nauðsynlegt væri að hefja aðildarviðræður þegar í stað og hve ESB og evran væru mikilvægir þættir í efnahagsuppbyggingu landsins. Hafa þeir skipt um skoðun eða meintu þeir aldrei neitt með þessum yfirlýsingum sínum?

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður á fréttavefnum Amx.is)