Íbúar ESB-ríkja ósáttir við ástandið

Á síðustu misserum hefur verið gífurleg óánægja með ástand efnahagsmála meðal íbúa ESB-ríkjanna. Víða um Evrópu hefur almenningur farið á götur borga og bæja til þess að krefjast umbóta, og hafna aðhaldsaðgerðum stjórnvalda.

Írland – Mótmæli voru haldin 6. desember í því skyni að andmæla kröfum ESB um aðhaldsaðgerðir. Margir telja þetta byrjun á herferð sem mun leiða til að þjóðaratkvæðagreiðsla þarlendis mun eiga sér stað um samning um samruna fjárlagagerðar ESB-ríkjanna.

Portúgal – Allsherjarverkfall gegn aðhaldsaðgerðum stjórnvalda átti sér stað í landinu 24. nóvember. Allar samgöngur voru tafðar og starfsemi opinberra stofnana var stöðvuð.

Ítalía – 17. nóvember síðastliðinn voru víða um Ítalíu verkföll og mótmæli. Lágu samgöngur niðri í mörgum borgum og tóku meðal annars starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og námsmenn þátt. Þá var sérstaklega verið að mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda og ríkisstjórn Mario Monti, eða “ríkisstjórn bankamanna” eins og hún hefur verið kölluð þarlendis.

Grikkland – Þann 28. október á ári hverju er haldinn hátíð í Grikklandi til þess að minnast þess að þennan dag 1940 höfnuðu Grikkir tilboði ítölsku fasistastjórnarinnar og studdu í stað bandamenn. 28. október 2011 þurftu forseti landsins og Varnarmálaráðherra að yfirgefa hátíðina, þar sem mótmælendur voru búnir að fylla miðborg Þessaloníkí. Mótmæli áttu sér stað víða um Grikkland þennan dag.

Bretland – Tvær milljónir opinberra starfsmanna fóru í verkfall í Bretlandi 30. nóvember. Mótmæli áttu sér einnig stað í mörgum borgum.

Spánn – Atvinnuleysi ungmenna hefur náð hæstu hæðum, eða 44%, og hefur verið mótmælt víða um landið.

Frakkland og Belgía – Lánstraust ríkjanna hefur verið lækkað og eru víðtækar hagræðingaraðgerðir í undirbúningi. Búist er við sterkum viðbrögðum íbúa landanna tveggja, ekki er ólíklegt að mótmæli og verkföll muni eiga sér stað í auknum mæli.