Íhlutun Evrópusambandsins í stjórnmál á Íslandi

Framkvæmdastjórn Heimssýnar vekur athygli á boðuðum afskiptum erlends stjórnvalds af íslenskum innanríkismálum í eftir grein Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sem birtist í Morgunblaðinu 14. október.

Fule skrifar ,,Stuðningur almennings við inngöngu í ESB er frumskilyrði. Ég fagna því aðgerðum ríkisstjórnar Íslands og Alþingis til að fræða fólk um Evrópusambandið og samningaferlið. Ég vona að með því megi eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins. Upplýsingaskrifstofa ESB á Íslandi, sem opnuð verður í Reykjavík innan nokkurra vikna, mun einnig taka þátt í því starfi.”

Framkvæmdastjórn Heimssýnar telur að lýðræði og sjálfstæði þjóðarinnar geti verið í hættu fái erlend stjórnvöld að reka hér pólitískan áróður eða kynningarstarfsemi.

Auk upplýsingaskrifstofu, hyggst Evrópusambandið verja 213 milljón krónum til auglýsinga í viðbót við óþekktan fjölda kynningaferða fyrir áhrifafólk til Brussel.

Heimssýn vill benda á að þessar aðgerðir Evrópusambandsins eru augljós stuðningur við stefnu Samfylkingarinnar sem einn flokka hefur það á stefnuskránni að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Þá vekur stjórnin athygli á lögum nr. 62 frá 1978 um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og útgáfu erlendra sendiráða á Íslandi. Markmið þeirra laga er einmitt að koma í veg fyrir óæskilega íhlutun erlendra aðila í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Framkvæmdastjórn Heimssýnar hvetur alþingi Íslendinga að taka til varna fyrir lýðræðið í landinu og koma í veg fyrir að erlent stjórnvald hafi áhrif á stjórnmálaumræðu í aðdraganda þjóðaratkvæðis um Evrópusambandsaðild.