Innganga í ESB þýddi endalok svína- og kjúklingaræktar

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið legðist svínarækt og kjúklingarækt af á Íslandi. Aðrar kjötgreinar yrðu fyrir verðskerðingu, en þó minnst í nautakjöti og lambakjöti. Þetta kom m.a. fram í máli Jóns Baldurs Lorange, hjá Bændasamtökum Íslands, á fundi um Evrópusambandið og landbúnaðinn sem Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir sl. miðvikudag, en Bændasamtökin hafa viðað að sér ítarlegum upplýsingum um landbúnað í Evrópusambandinu og hugsanleg áhrif inngöngu Ísland í það.

Jón Baldur sagði að ávinningur neytenda af inngöngu í ESB væri mun minni en gefið hefði verið í skyn. Verðlag hjá þeim þjóðum sem gengið hefðu í sambandið hefði lækkað um 2% að meðaltali, en ekki 30% eins og sumir hefðu talað um. Hann kynnti einnig tölur sem sýndu að verð til bænda í ESB lækkaði stöðugt á meðan smásöluverðið hækkaði. Milliliðir væru að taka sífellt meira til sín. Þá væru stærstu búin innan sambandsins ekki hefðbundin bú eins og þekktust hér á landi heldur stórar fyrirtækjasamsteypur.

Sigurjón Helgason, formaður Búnaðarfélags Mýramanna, sagði að fundurinn hefði verið velheppnaður og málefnalegur. Bændur hefðu áhuga á að kynna sér áhrif aðildar að ESB, en lítill stuðningur væri við aðild meðal bænda.

Heimild:
ESB-aðild þýðir endalok svína- og kjúklingaræktar (Mbl.is 15/04/10)