IPA – styrkir ESB

Vigdís Hauksdóttir, Alþingismaður

eftir Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins

Nú hefur Össur Skarphéðinsson lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem heimilar viðtöku ESB-styrkja að upphæð allt að 30 milljónum evra sem svara til um 5.000 milljóna íslenskra króna. Nú þegar hefur ríkisstjórnin tekið yfirdráttarlán af þessari upphæð því í fjárlögum fyrir 2012 voru færðar 596 milljónir. Það kom fram í umræðum á Alþingi nú í vikunni að hvorki utanríkisráðherra né fjármálaráðherra vissu um fyrirframgreiðsluna. Að ríkissjóður  taki að „láni“ fjárhæðir frá ESB og færi þær í fjárlög ríkisins án þess að heimild liggi fyrir frá Alþingi um hvort taka megi við styrkjunum eða ekki er í besta falli vafasöm athöfn. Þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon ber mikla ábyrgð á þessum gjörningi og sífellt hækkar afglapastabbi hans í starfi.

Það er afar ógeðfellt að skoða þingsályktunartillöguna sem byggir á rammasamning um IPA styrki á milli ESB og Íslands, sem skilgreint er sem „styrkþegi“. Samningurinn var undirritaður í Brussel þann 8. júlí 2011 og er fyrst núna að koma fyrir Alþingi. Þessar háu fjárhæðir eiga allar að fara inn í EES – stofnanir hér á landi að kröfu ESB og hinn almenni Íslendingur ber ekkert úr bítum. Ég bendi hér á alvarlegustu ákvæði samningsins.

Í fyrsta lagi mun framkvæmdastjórn ESB annast stýringu á „aðstoð“ við Ísland. Ekkert annað ríki sem sótt hefur um aðlögun að ESB hefur verið niðurlægt á þennan hátt – en framkvæmdastjórnin telur að stjórnvöld hér á landi hafi ekki burði til að annast þessa stýringu. Þessu kyngir utanríkisráðherra.

Í öðru lagi varðandi yfirumsjón, eftirlit og endurskoðun á styrkveitingunum skal framkvæmdastjórn og endurskoðunardómstóll ESB fara með þær valdheimildir. Þetta þýðir að framkvæmdastjórn ESB endurskoðar sínar eigin gjörðir – en það er nú ekki nýtt – enda hafa löggiltir endurskoðendur ekki treyst sér til að skrifa upp á reikninga ESB í tæp 20 ár. Þessu kyngir utanríkisráðherra.

Í þriðja lagi skal ESB njóta friðhelgi gagnvart lögsókn og lögsögu íslenskra dómstóla vegna ágreinings við þriðja aðila eða vegna ágreinings milli þriðju aðila er varðar á beinan eða óbeinan hátt IPA-aðstoð sem veitt er samkvæmt samningnum. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að verja þessa friðhelgi og taka þá afstöðu til ágreiningsefnisins er ver hagsmuni framkvæmdarstjórnar ESB og skulu þessir aðilar hafa samráð um hvaða stefna skuli tekin í dómsmáli. Þessu kyngir utanríkisráðherra. Enn á ný er ríkisstjórnin að selja dómsvaldið úr landi. Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir í raun og sann? Hér er verið að lögleiða að ríkisvaldið standi með ESB í dómsmáli á móti sínum eigin þegnum. Er hægt að komast neðar í undirlægjuhætti gagnvart Brusselveldinu? Þessi samningur er fjandsamlegur íslensku samfélagi og leiðir það eitt af sér að uppfylla kröfur ESB – að gera Ísland að ESB ríki án undanfarandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Í næstu grein mun ég fjalla um ótrúleg skattfrelsisákvæði og undanþágur opinberra gjalda er í IPA rammasamningnum felast fyrir aðila sem búsettir eru utan Íslands.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 27. janúar 2012, og má einnig finna á vefsíðu Vigdísar vigdish.is