Írar hafna Lissabon-sáttmálanum samkvæmt nýrri könnun

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun á Írlandi sem gerð var af fyrirtækinu Gael Polls hafna írskir kjósendur Lissabon-sáttmálanum (fyrirhugaðri Stjórnarskrá Evrópusambandsins) með góðum mun þegar kosið verður um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu 2. október nk. Sé aðeins tekið við af þeim sem tóku afstöðu með eða á móti sögðust 59% ætla að hafna sáttmálanum en 41% að samþykkja hann. Kannanir undanfarið hafa verið mjög mivísandi og sumar bent til þess að Írar samþykki sáttmálann.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Lissabon-sáttmálann 2. október verður í annað sinn sem Írar kjósa um sáttmálann en þeir höfnuðu honum sem kunnugt er fyrir rúmu ári síðan. En þar sem niðurstaðan var ráðamönnum Evrópusambandsins ekki að skapi var ákveðið að hún yrði hunsuð og kosið aftur í samræmi við þá vinnureglu innan sambandsins að kosið sé aftur og aftur um samrunaskref þess þar til þau eru samþykkt og þá sé aldrei kosið aftur. Þ.e. ef fólki er þá gefinn kostur á að segja álit sitt á slíkum skrefum sem Evrópusambandið reynir að komast hjá í lengstu löð.

Gael Polls spáði rétt fyrir um úrslit þjóðaratkvæðisins sumarið 2008 rétt áður en það fór fram og forsvarsmenn fyrirtækisins eru bjartsýnir á að það sama verði uppi á teningnum nú. “Skoðanakönnun okkar var framkvæmd á sex dögum og við notuðum nákvæmlega sömu aðferðafræði og á síðasta ári. Reynsla okkar er sú að afstaða fólks sé ekki nærri því á eins mikilli hreyfingu og margir halda. Fólk hefur yfirleitt mjög ákveðnar hugmyndir um það hvernig það ætlar að greiða atkvæði og þeir sem segjast ekki vera vissir hafa tilhneigingu til þess að kjósa alls ekki,” er haft eftir starfsmanni Gael Polls, Paul Murphy.

Þess má geta að samþykkt Lissabon-sáttmálans er forsenda frekari stækkunar Evrópusambandsins þar sem núverandi sáttmálar sambandsins gera ekki ráð fyrir því að fleiri ríki séu innan þess en þau 27 sem þegar eru þar.

Heimild:
Gael Poll answers on Lisbon2: 59% NO vs. 41% YES (Teameurope.info 21/09/09)