Írar þurfa að kjósa aftur um óbreyttan Lissabon-sáttmála

Forystumenn Evrópusambandsins hafa ákveðið að Írar skuli greiða aftur atkvæði um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins), en þeir höfnuðu honum sem kunnugt er í þjóðaratkvæði sumarið 2008. Talið var að gerðar yrðu breytingar á sáttmálanum til þess að auka líkurnar á að írskir kjósendur samþykktu hann en horfið var frá því m.a. vegna þess að það hefði þýtt að önnur ríki sambandsins hefðu þurft að staðfesta hann aftur en 23 af 27 ríkjum þess hafa þegar gert það. Írar voru þó einir um að fá að greiða atkvæði um sáttmálann í þjóðaratkvæði en annars staðar var hann staðfestur af viðkomandi þjóðþingum.

Einungis var ákveðið að láta pólitískar yfirlýsingar fylgja Lissabon-sáttmálanum sem kveða á um ákveðnar undanþágur frá honum fyrir Íra, en slíkar yfirlýsingar hafa þó enga lagalega þýðingu sem þýðir að þær stæðust ekki fyrir dómi ef á þær reyndi. Tilgangurinn með þeim er m.ö.o. aðeins sá að blekkja írska kjósendur til þess að samþykkja sáttmálann í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu sem búist er við að fram fari í október á þessu ári.

Þess má geta að þeirri vinnureglu hefur lengi verið fylgt innan Evrópusambandsins að í þau fáu skipti sem almenningur í ríkjum sambandsins fær að segja álit sitt á samrunaskrefum innan þess og hafnar þeir, sem yfirleitt hefur verið raunin, er honum gert að kjósa aftur og aftur um þau þar til þau eru samþykkt. Sama er uppi á teningnum núna. 

Heimildir:
Irish to vote on exactly the same text of Lisbon Treaty – EU admits that nothing has changed (Openeurope.org.uk 19/06/09)