Ísland fær norskan stuðning í makríldeilu við ESB

Norsk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að standa með Evrópusambandinu gegn Íslandi í deilunni um veiðar á makríl. Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra bregst illa við gagnrýninni í viðtali við tvö norsk dagblöð, Nationen og Verdens gang. Samtökin Nei til EU gáfu Berg-Hansen falleinkunn og rökstuddu það m.a. með því að hún hafi gengið í lið með Evrópusambandinu í deilunni um makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga.

Berg-Hansen játar að vera aðildarsinni en segir það ekki ástæðuna fyrir samstöðunni með Evrópusambandinu heldur séu það hagsmunir norskra sjómanna. Peter Örebech sérfræðingur í alþjóðarétti tekur undir gagnrýnina á norska sjávarútvegsráðherrann. Hann segir óviðeigandi að norsk stjórnvöld leggist flöt fyrir kröfum Evrópusambandsins. Aðeins séu óverulegir norskir hagsmunir í húfi, segir Örebech.