Íslendingar varaðir við ESB-aðild

Fulltrúar Dana, Norðmanna, Svía og Finna á Norrænum Fólksríkisdegi vara Íslendinga eindregið við að ganga Evrópusambandinu á hönd. Þetta kom glöggt fram í umræðum á fyrsta degi hins árlega málþings sem að þessu sinni var haldið um verslunarmannahelgina í Ydby á Norður Jótlandi. Setningaræðu þingsins flutti Bjarni Harðarson bóksali og fulltrúi samtakanna Heimssýnar á Íslandi.

Bjarni rakti í ræðu sinni aðdraganda þess að Ísland sótti um aðild að ESB nú í sumar og ræddi meðal annars um þá þverstæðu að stór hluti þeirra þingmanna sem studdu tillöguna hafi um leið lýst andstöðu við aðild Íslands að ESB.

Í umræðum á þinginu vöktu fulltrúar hinna Norðurlandanna athygli á að samningagerð við ESB væri ótraust þar sem sambandið hefði í öllum tilvikum möguleika á að breyta innihaldi þeirra með einhliða ákvörðun eftir á. Slík væri reynsla þeirra Norðurlanda sem þegar væru innan ESB og sömuleiðis ríkti innan landanna það andrúmsloft að andstaða við ESB aðild væri allt að því óleyfileg skoðun sem gæti hvenær sem er orðið þeim sem henni héldi fram fótakefli í starfsframa, áhrifum og almennri velgengni hvort sem er innan hins opinbera geira eða í einkageiranum.

Þá bentu norskir fulltrúar á þinginu á að Ísland gæti aldrei samið um varanlega eigin stjórn fiskveiðilögsögu sinnar, ekki frekar en Norðmenn en þar í landi hafa stjórnvöld tvisvar lagt aðildarsamning fyrir þjóðaratkvæði. Jafnvel þó svo að samið væri um sérákvæði væri sá möguleiki fyrir hendi að þeim samningsákvæðum yrði breytt með úrskurði dómstóla eða breyttu regluverki ESB líkt og gerst hefði í samningum við Breta.

Mauri Nygaard frá Finnlandi fjallaði um áhrif myntsamstarfs ESB á finnskt efnahagslíf en Finnland hefur eitt Norðurlandanna tekið evruna upp. Nú þegar kreppir að væru framleiðslustörf að flytjast í stórum stíl frá Finnlandi til Svíþjóðar þar sem gengi evrunnar héldist enn hátt meðan sænska krónan væri lág. Þá taldi Mauri að ávinningur af stöðugleika evrunnar væri umdeilanlegur enda hefði sveifla hennar gagnvart dollar á síðustu 10 árum verið veruleg.

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
www.heimssyn.is