Krafa um að Grikkjum verði vísað af evrusvæðinu

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, sagði sl. laugardag að áætlun um aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sé ekki ánægjuleg en lífsnauðsynleg. Papandreou óskaði í gær eftir aðstoð upp á 45 milljarða evra, en Grikkir eru fyrsta þjóðin á evrusvæðinu sem óskar eftir slíkri aðstoð. Grikkir óskuðu eftir skjótum viðbrögðum frá sambandinu og AGS við hjálparbeiðninni.

Mikillar andstöðu hefur gætt í Þýskalandi við að koma Grikkjum til aðstoðar. Þjóðverjar hafa sagt að einungis eigi að grípa til björgunaraðgerða ef stöðugleika evrunnar sé ógnað. Þær raddir verða sífellt háværari í Þýskalandi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, að Grikkir eigi að hugleiða það að segja sig úr evrópska myntsamstarfinu og þar með segja skilið við evruna.

Heimild:
Vilja Grikki af evrusvæðinu (Mbl.is 24/04/10)