Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins hentar ekki hér á landi

Ólafur R. Dýrmundsson

Grein úr Bændablaðinu 14. júní 2012

Þátttaka mín í starfi Búfjárræktarsambands Evrópu (EAAP), allt frá 1976, sem tengiliður Íslands við sambandið frá 1977, og í stjórn þess frá 2009, hefur nýst mér og ýmsum öðrum með margvíslegum hætti, ekki síst vegna persónulegra sambanda við fjölda fólks í landbúnaðarstofnunum og ráðuneytum í mörgum Evrópulöndum.

Þótt EAAP sé algerlega óháð Evrópusambandinu hef ég orðið margs vísari um landbúnaðarstefnu þess (CAP) og áhrif hennar á þróun landbúnaðar víða í Evrópu. Þá hef ég einnig notið góðs af samböndum sem ég hef í gegnum samtök lífrænna bænda, IFOAM, dýravelferðarsamtök og Slow Food hreyfinguna í Evrópu og víðar. Í því sambandi vil ég vekja athygli á eftirtöldum atriðum sem ég tel skipta máli þegar aðildarviðræður eru í undirbúningi á milli Ríkisstjórnar Íslands og Evrópusambandsins:

Þótt samanburður við þróun landbúnaðar í norðurhéruðum Svíþjóðar og Finnlands sé gagnlegur tel ég hann hafa takmarkað gildi. Líta þarf á áhrif landbúnaðarstefnu ESB á landbúnaðarþróun og fæðuöryggi frá mun hærri og víðari sjónarhóli. Á þetta hef ég reyndar bent nokkrum sinnum á seinni árum, m.a. eftir nokkur kynni af þróuninni í Skotlandi og víðar á Bretlandseyjum, á Möltu og á Krít, þ.e.a.s. í jaðarbyggðum ESB utan Norðurlanda.

Ég leyfi mér að fullyrða að margvíslegan lærdóm má draga af þróuninni, bæði í löndum sem hafa verið lengi í ESB, t.d. í Grikklandi og á Írlandi í 30-40 ár, og t.d. í Ungverjalandi og Eystrasaltslöndunum sem gengu í sambandið upp úr aldamótunum. Öll eru þessi lönd í erfiðri og jafnvel afleitri efnahagslegri stöðu og öll nota þau evru sem gjaldmiðil. Mér finnst ekki hafa verið litið nægilega mikið til fenginnar reynslu í þessum löndum, t.d. í úttektum sem búgreinafélög innan Bændasamtaka Íslands hafa fengið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að vinna.

Ýmsar spurningar vakna þegar rætt er við búvísindamenn, bændur o.fl. frá ESB þjóðunum, fjölmennum sem fámennum, t.d. þessar tíu:

a) Hvers vegna dróst framleiðslasvínakjöts á Möltu saman um nær 50% á fyrstu fimm aðildar-árunum á liðnum áratug?

b) Hvers vegna er framleiðsla sykurs úr sykurrófum liðin undir lok í Bretlandi og á Írlandi?

c) Hvers vegna hefur sauðfjárstofninn á Írlandi dregist saman um 50% á seinni árum?

d) Hvers vegna heyrast þær raddir frá Grikklandi, t.d. í við-tali í Bændablaðinu 18. apríl sl., að þar þurfi að endurreisa landbúnaðinn eftir 30 ára áhrif frá landbúnaðarstefnu ESB?

e) Hvers vegna rekur ESB landbúnaðarstefnu með styrkjakerfi sem sums staðar hefur reynst mjög illa, t.d. í Grikklandi, þar sem gripa- og landtengdar greiðslur, í stað framleiðslutengdra greiðsla, hafa dregið úr framleiðslu og aukið innflutning matvæla og þar með skert fæðuöryggi?

f) Hvers vegna er verið að flytja vaxandi fjölda nautgripa, sauðfjár o.fl. búfjár á fæti til slátrunar um langan veg til Tyrklands og annarra landa austan Miðjarðarhafs þar sem gripirnir er hálsskornir án deyfingar að hætti Halal á sama tíma og sláturhús með ESB viðurkenningu, t.d. í Eistlandi, eiga í vök að verjast?

g) Hvers vegna á svínarækt í vökað verjast í ýmsum löndum Austur-Evrópu og víðar vegna innflutnings svínakjöts frá Danmörku og Hollandi, eða vegna fjárfestingar utanaðkomandi aðila frá Vestur-Evrópu og víðar í gríðarlega stórum verksmiðjubúum sem leiða til uppgjafar svínabænda í stórum stíl? Að hve miklu leyti ráða bankar og fjárfestingasjóðir ferðinni?

h) Hvers vegna renna stuðningsgreiðslur til landbúnaðar í ESB í vaxandi mæli til stórra fyrirtækja sem byggja upp ósjálfbæran verksmiðju- og stórbúskap á sama tíma og venjulegum bændum fækkar og búskapur í jaðarbyggðum er á undanhaldi, þrátt fyrir byggðastuðning ESB?

i) Hvernig er hægt að koma þeimupplýsingum betur til skila að stuðningsgreiðslur ESB til landbúnaðar fara minnkandi, eru tímabundnar og nema venjulega ekki meiru en 40-60% af heildarstuðningi á móti 60-40% úr ríkissjóði viðkomandi aðildarþjóðar?

j) Hvernig er hægt að koma þeimupplýsingum betur til skila að það sé ekki sjálfgefið að matvælaverð lækki hér á landi við ESB-aðild, a.m.k. ekki þegar til lengri tíma er litið, m.a. vegna vaxandi orkukostnaðar, mótvægisaðgerða gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda, loftlagsbreytinga, jarðvegseyðingar og vatnsskorts í heiminum?

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi til umhugsunar því að ég tel að enn betur þurfi að stuðla að gagnrýninni og faglegri umræðu um kosti og galla aðildar að ESB, sérstaklega hvað varðar líklega eða sennilega þróun landbúnaðarframleiðslu, fæðuöryggis og matvælaverðs í alþjóðlegu samhengi. Þótt greina megi ákveðna og uppbyggjandi þætti í CAP, svo sem stuðning við lífrænan landbúnað og verndun „gamalla“ búfjárkynja, tel ég meginstefnuna alls ekki henta hinum sérstæða íslenska landbúnaði.

Ólafur R. Dýrmundsson
Landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu