Lissabon-sáttmálanum hefði verið hafnað í flestum ríkjum ESB

Charlie McCreevy, ráðherra innrimarkaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, viðurkenndi í ræðu sem hann hélt í Dublin 25. júní sl. að Lissabon-sáttmálanum (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) hefði verið hafnað í flestum ríkjum sambandsins ef íbúar þeirra hefðu fengið að greiða atkvæði um hann. Eins og kunnugt er höfnuðu Írar sáttmálanum í þjóðaratkvæði sumarið 2008.

Írskum kjósendum hefur nú verið gert að kjósa aftur um Lissabon-sáttmálann næsta haust en þeir eru eina þjóðin innan Evrópusambandsins sem fengu að kjósa um málið í það skiptið en áður höfðu Frakkar og Hollendingar hafnað sáttmálanum árið 2005.

McCreevy bætti því við í ræðu sinni í Dublin að forystumenn margra ríkja Evrópusambandsins væru afskaplega ánægðir með að hafa ekki þurft lögum samkvæmt að leyfa kjósendum sínum að segja álit sitt á Lissabon-sáttmálanum.

Heimild:
McCreevy admits most EU voters would reject Lisbon (Belfasttelegraph.co.uk 26/06/09)