Magnús Orri Schram telur evruna milda skuldakreppuna

Frosti Sigurjónsson

Eftir Frosta Sigurjónsson

Magnús Orri Schram þingmaður skrifaði grein í Fréttablaðið 23. febrúar til að andmæla þeirri útbreiddu skoðun að skuldakreppa evrópu sé nátengd evrunni.

“Ekki er hægt að tengja kreppuna evrunni, heldur frekar að ákveðin ríki í Evrópu standa frammi fyrir erfiðleikum meðal annars vegna óráðsíu í rekstri og skuldasöfnunar, aðgerða til bjargar bankakerfi, og verðhækkana á eignum knúðum áfram af útlánaglöðum bönkum.” Skrifar Magnús Orri.

Hann gleymir reyndar að útskýra hvernig hinar gríðarlegu skuldir urðu til. Skýringin er sú að öll ríki á evrusvæðinu fengu um árabil nánast sömu lágu vextina og Þýskaland. Sú vitleysa leiddi til gríðarlegrar offjárfestingar hjá mörgum evruríkjum. Án evru hefðu þau aldrei fengið svona mikil lán.

Magnús Orri Schram

Magnús Orri telur því næst upp þrjá kosti myntbandalagsins sem hann segir milda áhrif kreppunar. En ætli Grikkir séu sammála?

“Í fyrsta lagi hefur sameiginleg mynt komið í veg fyrir að einstök ríki bregðist við samdrætti með því að setja upp hindranir eða höft í viðskiptum sín á milli.”

Kannski er grískt efnafólk sammála Magnúsi Orra um þennan kost. Því hefur tekist að forða 80 milljörðum evra frá Grikklandi og fjárfesta erlendis. Afleiðingin er að fé skortir til framkvæmda í Grikklandi, vextir hækka. Höft eru vissulega neyðarbrauð, en óheft útstreymi fjár dýpkar samt kreppuna fremur en að milda hana.

“Í öðru lagi kemur evran í veg fyrir að hægt sé að gengisfella myntir einstakra landa til að styrkja framleiðslu innanlands. Þesslags úrræði hafa í för með sér gríðarlega kjaraskerðingu neytenda, verðbólgu og skuldasöfnun og gengur því þvert gegn hagsmunum almennings til lengri tíma. “

Það er rétt að gengisfelling er erfið og lækkar laun allra en hún lækkar líka skuldir. Gengisfelling er sanngjarnari og mun léttbærari en sú braut þrenginga og innri- gengisfellingar sem Grikkjum er boðin. Grísk heimili þurfa nú að sætta sig við launalækkanir, án þess að skuldir þeirra lækki. Þessi leið launalækkana og niðurskurðar mun taka nokkur ár, bitna harðast á þeim sem minnst mega sín og valda átökum. Semsé mun erfiðar leið til aðlögunar en ef Grikkir hefðu haft eigin gjaldmiðil

“Í þriðja lagi hefur evran gert sameiginlegar aðgerðir mögulegar, þó að slík samstilling hafi tekið tíma og ekki verið þrautalaus.”

Það reyndar talinn einn helsti veikleiki myntbandalagsins að það hefur alls engin úrræði til sameiginlegra aðgerða. Af þeim sökum hafa æðstu ráðamenn ESB þurft að halda reglulega neyðarfundi um úrræði. Aðildarríkjum myntbandalagsins er gert að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar. Mörg hundruð þúsund krónur á hvern íbúa! Lánshæfismat evruríkja hefur beðið hnekki og fjármagnskostnaður hækkað. Leiðtogar sem streitast á móti eru beittir þrýstingi (lán og styrkir stöðvaðir). Þeim hefur verið skipt út og ESB plantað einlægum já-mönnum í staðinn. Lýðræðinu hiklaust sópað til hliðar. Er það nú orðinn kostur?

“Allt eftirlit hefur verið bætt, aukin samvinna er um stjórn fjármála ríkjanna og alþjóðlegt aðhald aukið.“

Hér fagnar Magnús Orri því að fjárræði evruríkja hefur verið stórskert. Brussel ætlar að leggja lokahönd á fjárlög hvers ríkis. Lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn munu ekki semja fjárlög Grikklands, heldur skriffinnar frá ESB sem enginn kaus. Til hvers ættu Grikkir að kjósa yfirleitt?

“Samþykki þjóðin aðild að ESB getur hún strax gengið inn í ERM2 samstarfið og um leið tengt krónu við gengi evru með stuðningi evrópska seðlabankans.“

Svokallaður “Stuðningur evrópska seðlabankans” þýðir að íslenski seðlabankinn getur fengið þar lán. Öll slík lán þarf að greiða til baka með vöxtum eins og Magnús Orri ætti að vita.

“Þannig næst jafnvægi í gengið og möguleiki gefst til afnáms hafta.”

Þannig hvernig? Hvernig næst jafnvægi í gengið? Magnús Orri mætti rökstyðja þessa fullyrðingu. Trúir hann því að “Já við ESB” og “ERM2 tenging” muni þurrka út mörg hundruð milljarða stabba af aflandskrónum? Hvaða gengi krónu telur Magnús Orri rétt að festa í ERM2? Hvað ef hér verður aflabrestur, náttúruhamfarir eða olía finnst á Drekasvæðinu? Á þá að halda sama genginu eins og ekkert hafi breyst?

“Evran er ákjósanleg fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi sem vilja stöðugleika, minni verðbólgu, lægri vexti og afnám verðtryggingar. Raunverulegar kjarabætur fyrir íslensk heimili felast í upptöku nýrrar myntar.”

Framtíð evru er einmitt háð mikilli óvissu. Aðgerðir leiðtoga ESB hafa einkennst af sýndarmennsku og vindhöggum og þannig mistekist að vekja traust fjármálamarkaða.

Eftir hrun, hafa vextir hvers aðildarríkis ráðist af skuldsetningu þess og hagvaxtarhorfum. Til að lækka vexti á Íslandi er rökrétta leiðin sú að greiða niður skuldir og auka hagvöxt.

Grísk heimili hafa evru, en þau þurfa samt að sætta sig við lækkandi tekjur á meðan skuldir standa óbreyttar. Fjármagnið flýr frá Grikklandi, vextir eru gríðarháir, lífskjör almennings hrynja og tugir þúsunda mótmæla á torgum. Magnús Orri ætti að drífa sig til Grikklands til að útskýra fyrir fólkinu þar hvað það er lánsamt að hafa evru.