Makríldeilan sýnir glöggt hvers vegna ESB-aðild er glapræði

Í nýlegri orðsendingu Tómasar H. Heiðar, aðalsamningamanns Íslendinga í viðræðum um makrílveiðar, kemur fram að á undanförnum fundum hafi fulltrúar ESB aftur og aftur LÆKKAÐ tilboð sín! Fréttablaðið segir frá því í dag að ESB hafi „gert að tillögu sinni að hlutdeild Íslands yrði 8% á fundi í London í haust“ en „ESB hafi „nefnt enn hærri tölur fyrr í samningaviðræðum strandríkjanna.“ Nú hljóðar tilboð ESB upp á 6,5%! Samhliða því hótar ESB að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum og „ýjar að innflutningsbanni og öðrum viðskiptaaðgerðum“, segir Tómas H. Heiðar.

Viðbrögð ESB-sinna við ósvífni ESB eru mismunandi. Í gær skrifar einn þeirra, Ómar Bjarki Kristjánsson, um þetta mál á Moggablogginu:
„Vonandi refsiaðgerðir gegn LÍÚ. Vonandi að tekið verði á þessu vandamáli sem frekja og yfirgangur LíÚ er. Því ljóst er að ekkert stjórnvald á íslandi er fært um að hafa stjórn á þessari klíku. Skammarlegt fyrir landið hvernig þetta hagar sér.“

ESB-dýrkendur eins og Ómar taka alltaf hagsmuni ESB fram yfir hag eigin þjóðar. Það er eins og hluti landsmanna skilji ekki að refsiaðgerðir gegn íslenskum sjávarútvegi beinast að okkur öllum, mér og þér og þeim sjálfum. Makrílveiðar íslenskra sjómanna, sem eingöngu fara fram í íslenskri lögsögu, eiga stóran þátt í að útflutningstekjur okkar eru að aukast, landsframleiðsla að vaxa en það hefur einmitt hjálpað þjóðinni að brjótast upp úr pyttinum sem hún hrundi ofan í við fall bankanna.

eftir Ragnar Arnalds
Greinina má finna í heild sinni á Vinstrivaktinni gegn ESB