Meirihluti Íslendinga andvígur inngöngu í Evrópusambandið

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir útgáfufélagið Andríki eru 48,5% Íslendinga andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 34,7% henni hlynnt. 16,9% sögðust ekki hafa tekið afstöðu til málsins. Sé aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu eru 58,3% andsnúin inngöngu en 41,7% henni fylgjandi.

Síðast voru birtar niðurstöður sambærilegrar könnunar í byrjun maí sl. þegar Capacent Gallup kannaði afstöðu landsmanna fyrir Ríkisútvarpið. Þá voru 38,7% á móti inngöngu en 39% studdu hana. Samkvæmt því hefur stuðningur við inngöngu dregist saman um rúm 4% en andstaðan hefur að sama skapi aukist um tæp 10%.

Einni var spurt að þessu sinni um afstöðu til þjóðaratkvæðis vegna umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið og sögðust 60,9% vilja slíka atkvæðagreiðslu en 29,2% voru því andvíg. 9,9% tóku ekki afstöðu. Þetta er í samræmi við fyrri kannanir um sama efni. Mikill meirihluti vill slíka atkvæðagreiðslu þó ríkisstjórnin hafi hafnað því. Skoðanakönnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí sl., úrtakið var 1273 manns og svarhlutfallið 56,3%.

Þess má geta að þessi spurning er í raun sú sem mestu máli skiptir nú þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið með naumum meirihluta á þingi að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Þá er það vitanlega afstaðan til inngöngunnar sem fyrst og fremst skiptir máli.

Heimild:
Andríki.is 05/08/09