Merkel kvartar yfir reglugerðafargani Evrópusambandsins

Í ræðu á fundi World Economic Forum sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að það yrði forgangsverkefni þýskra stjórnvalda að skera niður reglugerðafargan Evrópusambandsins þegar þau tækju við forsætinu innan sambandsins 2007. Benti hún í því sambandi m.a. á að um 6% af veltu minni og meðalstórra fyrirtækja í Þýskalandi færi í kostnað vegna skriffinsku.

Í sjálfu sér eru þetta þó ekki ný tíðindi enda hefur hvert aðildarríki Evrópusambandsins á fætur öðru haft það sem eitt aðalmarkmið sitt á undanförnum árum að koma böndum á reglugerðafargan sambandsins þegar þau hafa haft forsætið innan þess. En þrátt fyrir það hefur ekki annað gerst en að reglugerðafarganið hefur aukist jafnt og þétt með hverju árinu. Sama er að segja um framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en allt fyrir ekki. Svo virðist sem um einhvers konar vítahring sé að ræða.

Stjórnmálaskýrendur hafa sagt að þetta sé út af fyrir sig ekkert einkennilegt því svo virðist sem eina ráðið sem embættismenn Evrópusambandsins hafi til að leysa hvers kyns vandamál sem upp koma sé að setja fleiri reglugerðir. Þetta síaukna reglugerðafargan er síðan að kosta aðildarríki sambandsins stjarnfræðilegar upphæðir á ári hverju. Talið er að þau gætu sparað sér að meðaltali allt að 12% af landframleiðslu á ári ef reglugerðafarganið væri sambærilegt við það sem gerist í Bandaríkjunum.

Það merkilega er síðan að forystumenn íslenskra Evrópusambandssinna þræta enn fyrir það að Evrópusambandið sé skriffinskubákn þó forystumenn sambandsins sjálfs séu löngu farnir að viðurkenna það.

Heimild:
German EU presidency to fight red tape, says Merkel (EUobserver.com 26/01/06)