Merkel vill Evrópusambandsher og eina efnahagsstjórn

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sagði í ræðu sem hún flutti 13. maí sl. í þýsku borginni Aachen að verja yrði evruna þar sem endalok hennar þýddu endalok Evrópusambandsins. Ríki sambandsins yrðu því að koma sér saman um eina sameiginlega efnahagsstjórn. Sagði hún að Evrópusambandið væri að ganga í gegnum erfiðasta tímabil í sögu sinni og að nauðsynlegt væri að koma á sameiginlegri efnahagsstefnu og pólitískri stefnu innan þess. Í kjölfarið mætti síðan skoða t.a.m. hugmyndir um Evrópusambandsher.

Ljóst er að alltaf var ljóst að sameiginlegur gjaldmiðill innan ESB krefðist ekki aðeins sameiginlegrar peningamálastefnu heldur einnig sameiginlegrar efnahagsstjórnunar og pólitískrar stefnu. M.ö.o. eins ríkis. En þegar evrunni var hleypt af stokkunum á sínum tíma var ekki stuðningur við að farið yrði lengra en sem næmi sameiginlegri peningamálastefnu. Því var tekin sú ákvörðun að bíða eftir næstu krísu og nota hana til þess að ná í gegn sameiginlegri efnahagsstjórn og pólitískri stefnu.

Hvað Evrópusambandsherin varðar hefur lengi staðið til að koma honum á laggirnar. Fjölmargir forystumenn innan ESB hafa lýst stuðningi við þá hugmynd á liðnum árum og þegar er kominn vísir að slíkum her. Um er að ræða sérstakar hersveitir sem lúta stjórn sambandsins og ætlað er að geta burgðist hratt við hættum sem kunna að koma upp. Þá eru heimildir til stofnunar slíks hers í Stjórnarskrá ESB (Lissabon-sáttmálanum) sem tók gildi þann 1. desember á síðasta ári.

Heimild:
Merkel segir brýnt að verja evruna (Rúv.is 13/05/10)