Mikill meirihluti vill ekki evru og Evrópusamband

Ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Miðlun gerði fyrir vefritið Pressan.is vilja 55% Íslendinga að í peningamálum þjóðarinnar verði mörkuð stefna til framtíðar utan Evrópusambandsins með einum eða öðrum hætti. Þar af vill rúmur fjórðungur, eða 26%, að stefnan verði óbreytt og haldið í íslensku krónuna. 29% vilja taka upp erlendan gjaldmiðil einhliða, en þar af aðeins 9% evru. Einungis 24% vilja hins vegar taka upp evru með inngöngu í Evrópusambandið. 21% taka ekki afstöðu.

Sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu í könnuninni vilja þannig tæp 70% landsmanna fara leið sem felur það ekki í sér að gengið verði í Evrópusambandið. Aðeins tæpur þriðjungur vill evru með inngöngu í sambandið. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður skoðanakönnunar Capacent fyrir Samtök iðnaðarins sem birtar voru um miðjan september, en þar kom m.a. fram að 61,5% aðspurðra myndu hafna inngöngu í Evrópusambandið færi þjóðaratkvæði fram um það.

Skoðanakönnun Miðlunar nú kann því að benda til þess að andstaða við inngöngu í Evrópusambandið hafi aukist enn frá því um miðjan september.

Heimild:
Mjög skiptar skoðanir um gengisfyrirkomulag – fjórðungur vill halda krónunni (Pressan.is 24/10/09)