Misjöfn afstaða ESB til þjóðaratkvæða í Sviss og á Írlandi

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, fagnaði í dag niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þar sem kosið var um það hvort leyfa ætti frjálsa för verkafólks frá tveimur nýjustu ríkjum sambandsins, Búlgaríu og Rúmeníu, til landsins. Tæplega 60% þeirra Svisslendinga sem afstöðu tóku með eða á móti voru því hlynntir en rúm 40% á móti. Sagði Barroso að um „frábæra niðurstöðu“ væri að ræða og að hún myndi hafa jákvæð áhrif á samskipti Sviss og Evrópusambandsins.

Engum sögum hefur hins vegar farið af því að Barroso eða aðrir forystumenn Evrópusambandsins hafi viðrað þá skoðun að Svisslendingar þyrftu að kjósa aftur um málið eða lýst efasemdum um að svissneskir kjósendur hafi raunverulega verið að kjósa um þetta tiltekna mál en ekki eitthvað allt annað. Sú hefur þó verið raunin t.a.m. í tilfelli þjóðaratkvæðisins sem haldið var á Írlandi sl. sumar um fyrirhugaða Stjórnarskrá Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) sem Írar höfnuðu og raunar í hverri einustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin hefur verið um aukna samrunaþróun í Evrópu en hefur ekki skilað þeim niðurstöðum sem ráðamenn í Brussel hafa viljað sjá.

„Í þau fáu skipti sem kjósendum í ríkjum Evrópusambandsins hefur verið leyft að tjá skoðun sína á einhverjum samrunaskrefum innan sambandsins í þjóðaratkvæði hefur niðurstaðan oftar en ekki verið vonbrigði fyrir ráðamenn í Brussel. Vinnureglan hefur þá verið sú að endurtaka þjóðaratkvæðið aftur og aftur þar til fengist hefur niðurstaða sem þeim hefur líkað – og síðan hefur aldrei verið kosið aftur,“ segir Hjörtur J. Guðmundsson, stjórnarmaður í Heimssýn hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. 

Heimild:
EU’s Barroso hails ‘excellent’ Swiss vote (Eubusiness.com 08/02/09)