Mun evran lifa af alþjóðlegu efnahagskrísuna?

Daniel Hannan, þingmaður á Evrópusambandsþinginu, velti fyrir sér framtíðarmöguleikum evrunnar á bloggsíðu sinni fyrir helgi. Hann segist ekki hafa verið tilbúinn að taka undir spár um að evrusvæðið kynni að líða undir lok til þessa, þá aðallega vegna þess að hann teldi að forystumenn Evrópusambandsins myndu ekki leyfa því að gerast. Þeir væru búnir að fjárfesta of mikið í evrunni pólitískt. En nú væru farnar að renna á hann tvær grímur. Ekki síst þegar menn eins og Karl Otto Pöhl, fyrrum formaður bankastjórnar þýska seðlabankans, væru farnir að spá því að eitt af minni evruríkjunum kunni að þurfa að lýsa sig gjaldþrota.

Pöhl sagði í samtali við Sky fréttastofuna að hætta væri á að evruríki eins og Írland og Grikkland yrðu gjaldþrota og að svo gæti farið að mjög skuldsett ríki yrðu að yfirgefa evrusvæðið. Hann sagðist telja að einhver evruríki væru að íhuga þann möguleika. Hannan minnir á að Pöhl sé ekki hver sem er. Hann hafi verið formaður bankastjórnar þýska seðlabankans frá 1980-1991 og sé gjarnan nefndur sem einn af höfundum evrusvæðisins. Með styrkri peningamálastjórn við stjórnvölinn á þýska seðlabankanum hafi hann skapað forsendurnar fyrir tilurð svæðisins. Stuðningur aðila eins og hans við evruna sé afar mikilvægur og gagnrýni frá honum að sama skapi mjög alvarleg.

Heimildir:
Will the euro survive? (Hannan.co.uk 26/02/09)
Ex-Bundesbank Boss Warns Of Euro Threat (Sky.com 25/02/09)