Mun tiltrú vaxa?

Sumir vilja halda því fram að aðild eða jafnvel umsókn um aðild að ESB muni sýna umheiminum hvert Ísland stefnir í efnahagsmálum og bæta tiltrú á landinu en þessu fylgja sjaldnast nánari útskýringar.

Nú liggur það fyrir að vandi Íslands er ekki ímyndarvandi. Stærsti hluti vandans er skuldabaggi sem landið ber á öxlunum. Landið stríðir við bæði skammtímaskuldavanda sem kenndur er við jöklabréf og skapa hættu á miklu gengisfalli verið gjaldeyrishöftunum aflétt og langtímavanda sem mun sliga heimili, fyrirtæki og ríkið til áratuga.

Umsókn um aðild að ESB gefur vissulega til kynna að yfirvöld séu staðföst í að fara “IMF og ESB leiðina”, þ.e að borga allt sem mögulega er hægt að borga. Aðildin segir hinsvegar ekkert um það hvernig farið verði að því að eiga við skuldavandann.

Einhverjum kann að sýnast sem svo að innganga í ESB setji einhverskonar gæðastimpil á landið, að með því að taka inn alla löggjöf Evrópusambandsins muni landið verða talið tryggari fjárfestingakostur.

Þetta væri trúverðugra ef lönd eins og Lettland, Írland, Spánn, Grikkland, Ungverjaland og Pólland hefðu ekki getað komið sér í jafn mikið klandur og raun ber vitni þrátt fyrir aðild að sambandinu. ESB kann að vera mikill gæðastimpill í augum íslenskra júrófíla en það er ekki sjálfgefið að erlendir fjárfestar séu sömu skoðunar.

Evruna undursamlegu kunna menn að hafa í huga og þá sem leið út úr gjaldeyrishöftunum en það liggur fyrir að evra verður ekki tekin upp í nálægri framtíð, hvort sem það líða nú tíu ár eða þrjátíu,  og það sem meira er þá verður hún ekki tekin upp án þess að menn vinni bug á mesta efnahagsvandanum, þ.m.t gjaldeyriskreppunni.

Sumir hafa a vísu nefnt aðlögunarferlið ERM II í þessu samhengi en slíkur málflutningur byggir á misskilningi á því, hvort sem hann er viljandi- eða óviljandi. Fastgengi sem viðhaldið er með inngripum á kostað umsóknarríkissins er ekki fýsilegt fyrr en fljótandi gengi er orðið verulega stöðugt og vitaskuld er ekki hægt að hafa það hærra en eðlilegt markaðsgengi.

Er ekki löngu kominn tími á að fjölmiðlamenn gangi eftir því að stjórnmálamenn sem segja tiltrú á íslenskt hagkerfi munu aukast í kjölfar umsóknar útskýri hvernig það á að gerast? Ég leyfir mér að fullyrða að tiltrú á íslenska fjölmiðla myndi batna ef fjölmiðlamenn gerðu það.

Hans Haraldsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)