Nei, já eða kannski?

,,Gangi Ísland í Evrópusambandið flyst innlent framkvæmdavald til meginlands Evrópu í veigamiklum málaflokkum, svo sem í fiskveiðum, landbúnaði og gerð viðskiptasamninga við erlend ríki. Með því að forræði mála sem Íslendingar hafa einir haft á hendi flyst til Brussel skerðist fullveldi landsins”. Þetta er hluti af svari fulltrúa Heimsýnar við spurningunni ,,Glatar Ísland fullveldinu með aðild að ESB?” á nýrri vefsíðu,www.kannski.is, sem hefur að geyma svör fylgjenda og andstæðinga ESB við ýmsum lykilspurningum er snerta hugsanlega aðild Íslands að sambandinu.

Markmið vefsins er að auðvelda fólki að taka upplýsta afstöðu til aðildar og er lögð áhersla á að vefurinn sé óháður og hlutlaus vettvangur til að miðla upplýsingum um kosti og galla aðildar. Öllum er frjálst að senda inn spurningar á www.kannski.is og munu ritstjórar vefsins, þeir Arnar Ólafsson, Elvar Örn Arason og Jón Baldur Lorange, leita eftir svörum hjá fulltrúum JÁ- og NEI-hreyfinganna.