Norðmenn sækja ekki um inngöngu í ESB

Ný ríkisstjórn í Noregi mun ekki sækja um inngöngu í Evrópusambandið nema norska þjóðin láti ótvírætt í ljós vilja til að sækja um. Þetta sagði Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Skoðanakannanir undanfarin ár hafa jafnan sýnt meirihluta Norðmanna andvíga inngöngu í sambandið.  Við þær aðstæður segir Jensen að tilgangslaust sé að sækja um inngöngu í það.

Talið er að ríkisstjórn vinstriflokkanna undir forystu Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra, falli í þingkosningunum sem fram fara um næstu helgi. Þó er mjótt á mununum og kannanir sýna að ekki vanti mikið upp á að stjórnin halda velli. Stjórn Stoltenbergs hefur þá stefnu að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið sé ekki á dagskrá. Það er því ekkert sem bendir til þess að Norðmenn sæki um inngöngu í Evrópusambandið sama hvaða stjórnarform verður ofan á.

Heimild:
Ný stjórn styddi ekki ESB-aðild (Rúv.is 08/09/09)