Óttast að Þjóðverjar segi skilið við evruna

Bandaríski fjárfestinga-bankinn Morgan Stanley er farinn að vara viðskiptavini sína við því að tilraunir Evrópusambandsins til þess að bjarga Grikkjum í alvarlegum efnahagsvanda þeirra kunni að leiða til keðjuverkunar sem endi með því að Þýskaland yfirgefi evrusvæðið, nokkuð sem hefði gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði. Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins The Daily Telegraph í dag.

Haft er eftir Joachim Fels, forstöðumanni greiningardeildar Morgan Stanley, að björgun Grikklands kynni að vera nauðsynleg en væri um leið líkleg til þess að skapa forsendur fyrir enn stærri vandamálum síðar. Hann sagði að illa stæð ríki ættu ekki svo auðvelt með að yfirgefa evrusvæðið en það væri annað mál með Þýskaland sem kynni að líta á það sem einu leiðina til þess að koma á innlendum gengisstöðugleika.

Fels sagði að þó ekki lægi enn fyrir hvernig málið færi að lokum væri ljóst á þróuninni undanfarið að líklegra væri en áður að Þjóðverjar gæfu evruna upp á bátinn.

Heimild:
Morgan Stanley fears German exit from EMU (Telegraph.co.uk April 15, 2010)