Bréf til félaga í Heimssýn

jon_bjarnasonÁgæti félagi

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, þakkar stuðning þinn og baráttu fyrir málstað hreyfingarinnar og fagnar þeim árangri að Evrópusambandsumsóknin hafi verið stöðvuð. Barátta Heimssýnar og félaga á drjúgan hlut í að skila þeim árangri.

Starfsemin að undanförnu

Framkvæmdastjórnin ásamt varastjórn kemur reglulega saman tvisvar í mánuði og heldur stærri opna fundi um einstök málefni nokkrum sinnum á vetri. Jafnframt er sjónarmiðum Heimssýnar reglulega komið á framfæri á vefjunum www.heimssyn.is, www.heimssyn.blog.is eða með greinarskrifum, viðtölum við fjölmiðla, auglýsingum og fundum.

Heimssýn rekur skrifstofu í Ármúla 4, Reykjavík þar sem jafnframt er fundaraðstaða.

Meðal þeirra sem komið hafa á opna fundi Heimssýnar í vetur eru Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Hörður Kristinsson, ritstjóri Bændablaðsins, Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. Auk þess hafa einstakir stjórnarmenn Heimssýnar greint frá tilteknum málum á sérsviðum þeirra sem lúta að áherslum Heimssýnar.

Baráttan heldur áfram

Þótt umsóknin um aðild að Evrópusambandinu hafi verið stöðvuð hafa ýmis stjórnmálasamtök, hagsmunaðilar og forystumenn þeirra haldið fast við þá skoðun sína að halda beri umsókninni áfram, eða að framhald umsóknarinnar verði lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Heimssýn hefur lagt áherslu á að Alþingi afturkalli umsóknina um aðild að Evrópusambandinu frá 2009 formlega og afdráttarlaust. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu frá 2009 var komin í þrot og ekki hægt að halda henni áfram, nema falla frá fyrirvörum Alþingis sem settir voru í þingsályktunartillögunni, m.a. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu ber að gera það áður en ný umsókn er send. Þar verði spurt: „Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki?“

Inngönguskilyrði Evrópusambandsins liggja öll fyrir. Aðildarsamningum við ESB lýkur ekki fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans, áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekkert til sem heitir „að kíkja í pakkann“

Sambandið er enginn „matseðill“ sem hægt er að velja af, sagði t.d. forseti framkvæmdastjórnar ESB við Breta. Mikilvægt er að gæta sín á þeim sem „bera kápuna lausa á báðum öxlum“ og tala tunguliprir um að „ljúka“ samningum. Staðreyndin er sú að aðildarsamningi við ESB er ekki hægt að ljúka af ESB hálfu fyrr en lög og reglugerðir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar í íslensk lög eða tímasett hefur verið hvenær það skuli gert. Ríkisstjórn Íslands verður síðan að skrifa undir samninginn og mæla með samþykkt hans áður en hann fer til afgreiðslu Alþingis eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna er svo hættulegt þegar heilir stjórnmálaflokkar og stór hagsmunasamtök hafa það á stefnuskrá sinni að „ljúka“ samningum um inngöngu í ESB. Það verður ekki gert nema að fella fyrst úr gildi fyrirvara Alþingis, t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og samþykkja framsal á fiskveiðiauðlindinni til ESB.

Barátta Heimssýnar fyrir sjálfstæðu og áháðu Íslandi sem standi utan Evrópusambandsins mun því halda áfram. Framundan eru kosningar bæði til forseta lýðveldisins og síðan einnig til Alþingis. Brýnt er að samtökin Heimssýn og einstakir félagar hennar haldi uppi sem öflugastri kynningu og baráttu fyrir málstað hreyfingarinnar og sjálfstæði þjóðarinnar.

Komum baráttumálunum á framfæri

Mikilvægt er að koma baráttumálum Heimssýnar og áherslum að í kosningabaráttunni og halda fast að málum bæði við forsetaframbjóðendur og svo ekki síður að stjórnmálaflokkum og einstökum frambjóðendum þeirra í næstu alþingiskosningum. Það hyggst Heimssýn gera með fundum, spurningum til frambjóðenda og flokka, útgáfustarfi, auglýsingum og öðrum þeim leiðum sem tiltækar eru.

Stefnt er að því að gefa út kynningarblað með haustinu sem dreift verði á heimili landsins og í fyrirtæki. Þar verði baráttumál Heimssýnar rakin og rökstudd,

Við þökkum stuðninginn

Öll þessi starfsemi krefst fjármagns, en Heimssýn reiðir sig á framlög félagsmanna og styrki einstaklinga og fyrirtækja.

Gíróseðlar hafa nú verið sendir til félagsmanna í heimabanka þeirra, þar sem óskað er eftir stuðningi. Allir eru velkomninr að vera félagar i Heimssýn, óháð greiðslum til samtakanna. Er þess vænst að félagsmenn bregðist fljótt og vel við og leggi sitt af mörkum.

Þeir sem ekki fá gíróseðil eða aðrir sem vilja styrkja félagið með hærri upphæðum er bent á bankareikning Heimssýnar : kt. 680602-5810, bankareikningur 101-26-5810.

Virðingarfyllst og með baráttukveðjum,

fyrir hönd Heimssýnar,

Jón Bjarnsson formaður

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, ræðir lýðræðismál í tengslum við ESB á fundi með Heimssýn

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hafði framsögu um ESB-málin á opnum stjórnarfundi Heimssýnar sem haldinn var í Iðnó í fyrrakvöld. Ásta Guðrún svaraði svo spurningum fundarmanna og tók þátt í líflegum umræðum um ýmsa þætti ESB-málanna. Meðal þess sem kom fram hjá Ástu var að Píratar vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda skuli áfram viðræðum um aðild Íslands að ESB eða ekki.

Ásta nefndi ýmsa kosti þess að vera hluti af ESB, og nefndi sérstaklega jafnréttismál í því samhengi og einnig friðarmál, en tiltók einnig neikvæð atriði sem því fylgdi eins og aukið skrifræði.

Ásta fullyrti að umsókn Íslands að ESB væri í raun í fullu gildi og að með bréfi utanríkisráðherra til ESB hefði verið gengið framhjá þinginu. Hún sagði jafnframt að ef hætta ætti viðræðum þyrfti að semja sérstaklega um það við ESB. Þegar talið barst að undanþágum frá ákvæðum sem hingað til hafa gilt hjá ESB, t.d. varðandi fiskveiðimál, var á Ástu að skilja að hún teldi ESB væri þess eðlis að það gæti ekki veitt neinar varanlegar undanþágur frá regluverki um slíka hluti. Hins vegar sagði hún það skoðun sína að það yrði að halda áfram samningaviðræðum til þess að sjá hvað út úr þeim kæmi.

Almennt var gerður góður rómur að málflutningi Ástu þótt fundarmenn hefðu margir hverjir aðrar skoðanir og í sumu annan skilning á stöðu mála og var ljóst að umræðan var hvergi nærri tæmd á þeim tíma sem til umráða var. Því er þess vænst að við fáum að eiga orðastað við þingmenn Pírata aftur áður en langt um líður.

Heimssýn hefur fengið fulltrúa ýmissa stjórnmálaflokka á fund með sér til að ræða um Evrópumálin. Meðal þeirra sem hafa nýverið komið á fundi hjá Heimssýn eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Birgir Ármannsson, fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar. Von er á fleiri fundum af þessu tagi.

Á myndinni eru Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, og Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, við upphaf fundarins í fyrrakvöld.

Ný framkvæmdastjórn Heimssýnar

Á stjórnarfundi Heimssýnar 11. þessa mánaðar var lokið við að kjósa nýja framkvæmdastjórn samtakanna. Hún er nú þannig skipuð: Formaður er Jón Bjarnason og varaformaður er Jóhanna María Sigmundsdóttir, en þau voru kjörin sérstaklega á nýlegum aðalfundi Heimssýnar. Ritari var svo kjörin Halldóra Hjaltadóttir og gjaldkeri Erna Bjarnadóttir. Aðrir í framkvæmdastjórn voru kjörin: Stefán Stefánsson, Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ásgeir Geirsson og Ólafur Hannesson. Varafulltrúar í framkvæmdastjórn voru kjörin: Guðni Ágústsson, Gunnlaugur Ingvarsson, Haraldur Ólafsson, Ívar Pálsson, Kristinn Dagur Gissurarson, Ragnar Arnalds, Sif Cortes, Sigurður Þórðarson, Styrmir Gunnarsson, Þollý Rósmundsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson.

Heimssýn hefur nú flutt aðsetur sitt og er skrifstofa samtakanna nú í Ármúla 6, 108 í Reykjavík.

Íslenskur diplómati fékk nóg af Brussel og þjónkun við stórveldi álfunnar

Stundin birtir athyglistvert viðtal við Einar Hannesson lögfræðing sem gerðist sendifulltrúi fyrir Ísland í Brussel á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Fyrst fannst honum auðvitað gaman að kynnast Brussel og sinna nýjum verkefnum. Ljóminn fór þó fljótt af verunni í ESB-borginni og honum fannst skriffinnskan aðallega snúast um að sinna hagsmunum stórveldis en ekki að þjóna hagsmunum almennings.

Sjón er sögu ríkari. Hér er hluti af viðtalinu við Einar í Stundinni endurbirtur:

Mér var svo árið 2002 sparkað upp í að verða diplómati fyrir Ísland á sviði samgöngu-, fjarskipta- og ferðamála. Ég flutti þá til Brussel og var í því starfi í eitt og hálft ár. Ég hætti þá að vinna fyrir íslenska ríkið en mér tókst að láta Eftirlitstofnun EFTA ráða mig eftir samkeppnis- og umsóknarferli. Það var mikið ævinýri að vera í Brussel sérstaklega framan af en svo fannst mér ljóminn aðeins vera farinn af þessu undir lokin. Þetta er sérstakur heimur og hálfgerð bóla. Teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð álfunnar í Brussel sem er skemmtileg borg til að búa í. Ég fékk hins vegar nóg. Ég fór aldrei að vinna hjá ríkinu til að verða skriffinni heldur til að þjóna almenningi. Þetta er svo mikið kerfi og hlutirnir gerast svo hægt og maður sér ekki nógu mikinn árangur erfiðisins þannig að þetta varð í staðinn spurning um þægilegt líf og vel borgaða innivinnu.

Manni finnst Evrópusambandið ekki vera að þróast í rétta átt og þess vegna fannst mér þetta frústrerandi. Ég skynjaði ákveðna breytingu á ESB frá því að vera bandalag um aukið frjálsræði í atvinnulífinu og fyrir fólkið – þessi fjórfrelsisprinsípp sem eru gríðarlega góð – en þetta var farið að þróast út í einhverja stórveldisdrauma Frakka um heimsyfirráð. Þetta voru eins og margir feitir kettir sem vildu bjór, góðar máltíðir og hátt kaup.

Nýkjörin stjórn Heimssýnar

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Heimssýnar fimmtudaginn 22. október 2015. Formaður var kjörinn Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og Alþingisþingmaður og varaformaður var kjörin Jóhanna María Sigmundsdóttir, bóndi og Alþingisþingmaður.

Aðrir í stjórn voru kjörin:

Anna Ólafsdóttir Björnsson
Ásdís Helga Jóhannesdóttir
Ásgeir Geirsson
Ásmundur Einar Daðason
Birgir Örn Steingrímsson
Bjarni Harðarson
Elísabet Svava Kristjánsdóttir
Erna Bjarnadóttir
Frosti Sigurjónsson
Gísli Árnason
Guðjón Ebbi Guðjónsson
Guðni Ágústsson
Gunnar Guttormsson
Gunnlaugur Ingvarsson
Halldóra Hjaltadóttir
Haraldur Hansson
Haraldur Líndal
Haraldur Ólafsson
Hörður Gunnarsson
Ívar Pálsson
Jakob Kristinsson
Jón Árni Bragason
Jón Ríkharðsson
Jón Torfason
Kristinn Dagur Gissurarson
Lilja Björg Ágústsdóttir
Óðinn Sigþórsson
Ólafur Egill Jónsson
Ólafur Hannesson
Páll Vilhjálmsson
Ragnar Arnalds
Ragnar Stefán Rögnvaldsson
Sif Cortes
Sigurbjörn Svavarsson
Sigurður Þórðarson
Stefán Stefánsson
Styrmir Gunnarsson
Viðar Guðjonshen
Vigdís Hauksdóttir
Þollý Rósmundsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson
Þóra Sverrisdóttir

Ísland er ekki lengur umsóknarríki

Í dag afhenti Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, Edgars Rinkevics, sem nú gegnir formennsku í Evrópusambandinu, bréf þess efnis að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að sambandinu. Af því tilefni ræddi fréttavefurinn Visir.is við Jón Bjarnason, formann Heimssýnar, sem sagði að þetta hefði bara verið ánægjulegt og eðlilegt skref.

Jafnframt sagði Jón það vera ríkisstjórnarinnar að meta þetta en umsóknin sem slík hefði fyrir löngu verið komin í pólitískt og efnislegt strand. Síðan sagði Jón: “Þetta gat engan veginn haldið áfram. Á síðasta vetri fékk þingið nákvæma greinargerð [skýrslu Hagfræðistofnunar] um það að ekki væri hægt að halda áfram inngönguferlinu á grundvelli þeirra fyrirvara sem Alþingi setti. Evrópusambandið krafðist fullra yfirráða yfir fiskimiðunum til dæmis.“

Sjá hér viðtalið við Jón Bjarnson, formann Heimssýnar.

60 prósent landsmanna eru andvígir inngöngu í ESB

Þegar reiknað er með þeim sem taka afstöðu í könnun sem Capacent gerði fyrir Heimssýn eru 60 prósent sem vilja ekki að Ísland gangi í ESB. Þegar tekið er mið af því að 18% svarenda eru hvorki hlynntir né andvígir inngöngu þá eru 32,8% fylgjandi og 49,1% andvíg inngöngu.

Könnun Capacent var framkvæmd  á bilinu 29. janúar til 5. þessa mánaðar. Þetta var netkönnun og var úrtakið 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarshlutfall var 60,6%, sem telst vera nokkuð gott.

Meðal íbúa Reykjavíkur og allra annarra sveitarfélaga voru þeir fleiri sem voru andvígir inngöngu í ESB. Jafnframt voru þeir fleiri meðal allra aldurshópa sem voru andvígir inngöngu. Hið sama gilti um kynin. Þar voru þeir einnig fleiri, bæði meðal karla og kvenna sem voru andvíg inngöngu í ESB. Tíu prósentum fleiri karlar reyndust andvígir inngöngu en meðmæltir. Munur meðal kvenna er enn meiri. Meðal þeirra eru tuttugu og fjórum prósentum fleiri sem eru andvígir inngöngu en hlynntir.

Opinn stjórnarfundur Heimssýnar

Á morgun, miðvikudaginn 4. febrúar, verður haldinn opinn stjórnarfundur Heimssýnar um stöðuna í Evrópusambandsmálunum hér heima og erlendis, ekki hvað síst í ljósi nýafstaðinna kosninga í Grikklandi.

Sérstakur gestur fundarins er Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins.

Fundurinn verður haldinn á Hótel Sögu og hefst klukkan 20.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum Heimssýnar.

Stjórn Heimssýnar

Stjórn Heimssýnar

Stjórn Heimssýnar á starfsárinu 2014 til 2015 skipa eftirfarandi: Jón Bjarnason formaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir varaformaður, Halldóra Hjaltadóttir ritari, Erna Bjarnadóttir gjaldkeri.

Framkvæmdastjórn skipa auk ofangreindra: Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Ásgeir Geirssonm, Stefán Stefánsson, Vigdís Hauksdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson.

Aðrir í stjórn eru:  Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Örn Steingrímsson, Bjarni Harðarson, Elísabet Svava Kristjánsdóttirn, Frosti Sigurjónsson, Gísli Árnason, Guðjón Ebbi Guðjónsson, Guðni Ágústsson, Gunnar Guttormsson, Gunnlaugur Ingvarsson, Haraldur Hansson, Haraldur Ólafsson, Hörður Gunnarsson, Ívar Pálsson, Jakob Kristinsson, Jón Árni Bragason, Jón Ríkharðsson, Jón Torfason, Kristinn Dagur Gissurarson, Lilja Björg Ágústsdóttir, Óðinn Sigþórsson, Ólafur Egill Jónsson, Ólafur Hannesson, Páll Vilhjálmsson, Pétur H. Blöndal, Ragnar Arnalds, Ragnar Stefán Rögnvaldsson, Sif Cortes, Sigurbjörn Svavarsson, Sigurður Þórðarson, Styrmir Gunnarsson, Viðar Guðjonshen, Þollý Rósmundsdóttir og Þóra Sverrisdóttir.