Seðlabanki ESB óttast nýja bankakrísu á næsta ári

Breska dagblaðið Daily Telegraph fjallaði um það nýverið að Seðlabanki Evrópusambandsins fylgdist náið með vaxandi erfiðleikum 25 banka á evrusvæðinu sem taldir eru skipta sköpum fyrir efnahagsleg afdrif svæðisins. Bankinn óttist aðra bankakrísu á svæðinu á næsta árið dragist efnahagskreppan á langinn. Dejan Krusec, sérfræðingur bankans í efnahagslegum stöðugleika, sagði bankana nógu sterka til þess að lifa af núverandi niðursveiflu en ekki ef það tekur lengri tíma að koma efnahagslífinu aftur í gang.

„Vandamálið er ekki 2009, bankar á evrusvæðinu eru vel fjármagnaðir til þess takast á við tap. Vandamálið er 2010. Við höfum áhyggjur af lengd [enahagskreppunnar],“ sagði Krusec.

Seðlabanki Evrópusambandsins gerir ekki ráð fyrir að efnahagslíf evrusvæðisins fari að rétta úr kútnum fyrr en um mitt ár 2010. Bankinn er því að undirbúa sig fyrir aukin vandamál á næsta ári. Piroska Nagy, ráðgjafi hjá Evrópska þróunarbankanum, segir að hætta sé á því að vestur-evrópskir bankar flýji frá Austur-Evrópu sem gæti leitt til hruns bankageirans þar.

Daily Telegraph segir að það sé engin töfralausn fyrir Austur-Evrópu. „Það verður erfiðara fyrir þá að komast út úr þessum vandamálum með auknum útflutningi en fyrir Austur-Asíu í krísunni árið 1998,“ er haft eftir Edward Parker hjá matsfyrirtækinu Fitch. Í þetta sinn sé allur heimurinn í niðursveiflu. Því til viðbótar séu Lettland, Eistland og Búlgaría föst í gjaldmiðilssambandi við evruna sem sé allof hátt skráð fyrir þessi ríki. Afleiðingin yrði mjög hörð lending.

Heimild:
ECB fears bank crisis in 2010 as recession drags on (Telegraph.co.uk 10/06/09)

Umsókn um inngöngu í ESB ástæðulaus

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir andstöðu við að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið en eins og kunnugt er liggur þingsályktunartillaga frá ríkisstjórninni þess efnis fyrir Alþingi. Jón Bjarnason er andvígur inngöngu og vill ekki sækja um hana. Hann segir menn ekki eiga að banka á hurð sem þeir vilji ekki að sé opnuð því þeir ætli sér aldrei þangað inn, því telji hann það algerlega ástæðulaust að sækja um inngöngu. Það megi kalla slíkt athæfi bjölluat.

Jón segir ennfremur að sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður megi ekki gleyma því að vinna við umsókn um inngöngu í Evrópusambandið kosti gríðarlegar upphæðir og spurning hvort vilji sé til þess að eyða hundruðum milljóna í slíkt umsóknarferli þegar nóg annað er við fjármunina að gera og verið er að skera niður í velferðarkerfinu.

Heimild:
Aðildarumsókn að ESB ástæðulaus (Rúv.is 23/06/09)

Tengt efni:
„Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB“

Engin evra í Svíþjóð í fyrirsjáanlegri framtíð

Núverandi ríkisstjórn hægrimanna í Svíþjóð mun ekki boða til nýs þjóðaratkvæðis um evruna en kjörtímabili hennar lýkur í september á næsta ári. Hægriflokkarnir hafa ennfremur lýst því yfir að verði þeir áfram við völd á næsta kjörtímabili verði það sama uppi á teningnum. Nýverið lýstu vinstriflokkarnir í landinu því sömuleiðis yfir að ef þeir kæmust í ríkisstjórn eftir kosningarnar á næsta ári yrði ekki boðað til þjóðaratkvæðis á kjörtímabilinu. Því kjörtímabili lýkur árið 2014 þannig að ljóst þykir að þjóðaratkvæði um evruna í Svíþjóð verði ekki aftur á dagskrá fyrr en eftir það – ef einhvern tímann.

Heimild:
Why Sweden won’t join the euro (Swedishwire.com 04/06/09)

 

Írar þurfa að kjósa aftur um óbreyttan Lissabon-sáttmála

Forystumenn Evrópusambandsins hafa ákveðið að Írar skuli greiða aftur atkvæði um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins), en þeir höfnuðu honum sem kunnugt er í þjóðaratkvæði sumarið 2008. Talið var að gerðar yrðu breytingar á sáttmálanum til þess að auka líkurnar á að írskir kjósendur samþykktu hann en horfið var frá því m.a. vegna þess að það hefði þýtt að önnur ríki sambandsins hefðu þurft að staðfesta hann aftur en 23 af 27 ríkjum þess hafa þegar gert það. Írar voru þó einir um að fá að greiða atkvæði um sáttmálann í þjóðaratkvæði en annars staðar var hann staðfestur af viðkomandi þjóðþingum.

Einungis var ákveðið að láta pólitískar yfirlýsingar fylgja Lissabon-sáttmálanum sem kveða á um ákveðnar undanþágur frá honum fyrir Íra, en slíkar yfirlýsingar hafa þó enga lagalega þýðingu sem þýðir að þær stæðust ekki fyrir dómi ef á þær reyndi. Tilgangurinn með þeim er m.ö.o. aðeins sá að blekkja írska kjósendur til þess að samþykkja sáttmálann í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu sem búist er við að fram fari í október á þessu ári.

Þess má geta að þeirri vinnureglu hefur lengi verið fylgt innan Evrópusambandsins að í þau fáu skipti sem almenningur í ríkjum sambandsins fær að segja álit sitt á samrunaskrefum innan þess og hafnar þeir, sem yfirleitt hefur verið raunin, er honum gert að kjósa aftur og aftur um þau þar til þau eru samþykkt. Sama er uppi á teningnum núna. 

Heimildir:
Irish to vote on exactly the same text of Lisbon Treaty – EU admits that nothing has changed (Openeurope.org.uk 19/06/09)

Aðkoma Alþingis að Evrópumálunum álitin formsatriði

Því er haldið fram á vefnum Orðið á götunni að undirbúningur sé kominn á fullt í utanríkisráðuneytinu fyrir viðræður um inngöngu í Evrópusambandið. Þannig sé t.a.m. þegar farið að hafa samband við hina ýmsu hagsmunaaðila innanlands og þrýsta á þá að undirbúa tilnefningar fulltrúa í ráðgjafarhópa sem ætlað er að vera íslensku viðræðunefndinni til aðstoðar. Ennfremur kemur fram að þessi undirbúningur innan veggja ráðuneytisins sé ekki án vitundar og vilja Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra.

Fram kemur á vefnum að það sama sé uppi á teningnum hjá ráðamönnum í Brussel. Þar á bæ sé þegar farið að leggja á ráðin hverjir verði í nefnd Evrópusambandsins sem ræða mun við fulltrúa Íslands. Þá segir að þeir sem ráði ferðinni í þessum málum telji aðkomu Alþingis og utanríkismálanefndar þingsins einungis formsatriði. Þeir líti svo á að niðurstaðan sé þegar fengin.

Þess má geta að þetta þarf ekki að koma á óvart m.a. í ljósi þess að fyrir liggur að þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var þegar farinn að undirbúa viðræður við Evrópusambandið sl. haust samhliða því sem Samfylkingin hóf að þrýsta á þáverandi samstarfsflokk í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkinn, að breyta stefnu sinni í Evrópumálum.

Að lokum má nefna að þessi vinnubrögð eru í fullkomnu samræmi við þau vinnubrögð sem stunduð eru af Evrópusambandinu sjálfu. Lýðræðislegar afgreiðslur mála eru aðeins taldar formsatriði þar á bæ. Gott dæmi um þetta er svokallaður Lissabon-sáttmáli sambandsins, en fyrir löngu er byrjað að setja á laggirnar stofnanir sem kveðið er á um í honum þrátt fyrir að hann hafi enn ekki fengið samþykki allra ríkja þess.

Heimildir:
Byrjað að undirbúa ESB-viðræður (Eyjan.is/ordid 10/06/09)
Formennska í samninganefnd (Eyjan.is/ordid 20/06/09)

Þjóðin mun ekki eiga síðasta orðið um ESB

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, upplýsti á Alþingi þann 18. júní að stefna ríkisstjórnarinnar væri að halda einungis ráðgefandi þjóðaratkvæði um hugsanlegan samning um inngöngu í Evrópusambandið en ekki bindandi. Þetta staðfesti Jóhanna í svari við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Bjarni benti á að þetta þýddi að íslenska þjóðin hefði ekki síðasta orðið um málið heldur ríkisstjórnin sem tæki endanlega ákvörðun um það hvort hún færi eftir niðurstöðunni eða ekki.

Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla þýddi að breyta þyrfti stjórnarskránni og þar sem Samfylkingunni liggur lífið á að koma Íslandi inn í Evrópusambandið sem allra fyrst álítur forysta hennar slíkt aðeins til þess fallið að tefja fyrir því markmiði. Sama á við um þjóðaratkvæði um það hvort sækja skuli um inngöngu í sambandið. Kjósendur verða því að sætta sig við það að ríkisstjórnin hafi síðasta orðið en ekki þeir sjálfir um það hvort gengið verði í Evrópusambandið ef áform hennar ná fram að ganga.

Þess má geta að nú þegar er gert ráð fyrir þjóðaratkvæði í stjórnarskránni í tveimur tilfellum, ef forseti neitar að undirrita lög frá Alþingi og ef breyta á sambandi ríkisins og þjóðkirkjunnar. Í þeim tilfellum væri um bindandi þjóðaratkvæði að ræða sem stjórnvöld hefðu ekkert val um að virða eða virða ekki. Eðlilega vaknar sú spurning hvort ásættanlegt sé að fram fari léttvægara þjóðaratkvæði um eins stórt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina og það hvort fullveldi Íslands verði framselt til Evrópusambandsins eða ekki?

Heimildir:
Ráðgefandi þjóðar­atkvæðagreiðsla um ESB nægjanleg, segir forsætis­ráðherra
(Amx.is 18/06/09)
Bjarni: Þjóðin mun ekki eiga síðasta orðið um ESB
(Vísir.is 18/06/09)

Tengt efni:
Verður aðeins haldið ráðgefandi þjóðaratkvæði um ESB?

 

„Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB“

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði í viðtali við Fiskifréttir 18. júní sl. að Íslendingar ættu að slá skjaldborg um íslenskan sjávarútveg og landbúnað og fullveldi Íslands og ekki láta það hvarfla að sér að ganga í Evrópusambandið. „Eftir að hafa rætt við helstu talsmenn fiskveiða og fiskvinnslu í Bretlandi nýverið styrktist þessi skoðun mín enn frekar og var ég þó gallharður fyrir,“ segir Jón.

Heimild:
Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra: Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB (Vb.is 18/06/09)

 

Fleiri skora á þingmenn VG að hafna ESB tillögu

Þann 15. júní sl. sendi Félag Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá sér ályktun þar sem forysta flokksins var gagnrýnd fyrir að hafa opnað á inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir þá stefnu hans að vera á móti slíkri inngöngu. Sömuleiðis hvatti félagið þingmenn flokksins til þess að hafna þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að sótt yrði um inngöngu í sambandið. Þann 17. júní sendi Félag Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Hveragerði og Ölfusi frá sér hliðstæða ályktun.

Ályktunin í heild hljóðar svo:

„Svæðafélag Vinstrihreyfingarinnar græns framboð í Hveragerði og Ölfusi tekur undir ályktun svæðafélags VG í Skagafirði sem birt var í morgunblaðinu þann 15.06.2009, en þar segir meðal annars:

Félag vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði minnir á samþykktir flokksins og yfirlýsingar fyrir nýliðnar alþingiskosningar þar sem alfarið er hafnað Evrópusambandsaðild og ítrekað að hagsmunum Íslendinga sé best borgið utan sambandsins.

VG er eini flokkurinn sem á sæti á alþingi sem hefur frá upphafi talað skýrt í þessum efnum. Því skorar félagið á þingflokk VG að beita sér gegn því að frekari skref verði stigin í átt til Evrópusambandsaðildar og hafna þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá hruni íslensks efnahagslífs hafa alþingismenn og stjórnvöld nú þegar sóað of miklum tíma og orku í umræðu um Evrópusambandsaðild og hefur það komið niður á öðrum og brýnni verkefnum til samfélagslegrar endurreisnar.

Svæðafélag VG í Hveragerði og Ölfusi  vill minna forystu og þingmenn flokksins á ályktun landsfundar VG um ESB og einnig þær yfirlýsingar sem flokkurinn gaf kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar um ESB. Félagið lýsir einnig yfir fullum stuðningi við þingmann VG á Suðurlandi Atla Gíslason í andstöðu hans við frumvarpið og við þá þingmenn VG sem lýst hafa sig andvíga fram komnu frumvarpi. Félagið hvetur einnig þingmenn allra flokka á alþingi að sameinast um átak í efnahagsmálum þjóðarinnar láti af frekari tímaeyðslu í ESB umræður við núverandi aðstæður.“

Heimild:
Ályktun svæðisfélags VG í Hveragerði og Ölfussi birtist hér í heildsinni en styttri útgáfa var birt í mbl þann 17 06 2009 (Rafng.blog.is 17/06/09)

Tengt efni:
Hvetja þingmenn VG til þess að hafna viðræðum við ESB

 

Öllu skal fórnað fyrir inngöngu í Evrópusambandið

Sturla Böðvarsson, fyrrv. forseti Alþingis og ráðherra, flutti ávarp við hátíðarhöld á 17. júní á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta, á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Í ræðunni minntist Sturla m.a. óbifanlegrar sannfæringar og málatilbúnaðar Jóns Sigurðssonar og samtíðarmanna hans: „Vert er að minna okkur á að því frelsi sem Jón Sigurðsson og samtíðarmenn hans skópu megum við ekki fórna né láta fara forgörðum í ölduróti heimskreppu eða vegna stundarhagsmuna.“ Sturla gangrýndi ennfremur mjög núverandi ríkisstjórn og hvernig hún ætli sér að  að fórna auðlindum þjóðarinnar fyrir stundarhagsmuni með því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið.

„Öllu skal fórnað til að ná því markmiði. Það er gert þegar verst stendur á fyrir okkur. Vilji stjórnvalda virðist standa til þess að draga niður þjóðfána okkar, sem er tákn okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, og draga þess í stað að húni fána Evrópusambandsins. Sá fáni mun yfirgnæfa allt hér og skapa óróleika og klofning meðal þjóðarinnar ef fram fer sem horfir.  Gegn því verðum við að berjast og tryggja  hagsmuni okkar, ekki síst þeirra sem lifa af því sem landið gefur, í sjávarbyggðum og sveitum landsins.“

Sturla minnti einnig á að innviðir samfélagsins væru sterkir og þjóðin væri vel menntuð og þess vegna gæti þjóðin brotist út úr þeim vanda sem hún glímir við um þessi misseri.

Ræðu Sturlu má nálgast í heild hér.

Heimild:
Hátíðarræða á Hrafnseyri við Arnarfjörð (Sturla.is 17/06/09)

 

„Ekki gera sömu mistök og við gerðum!“

Dagana 14.-17. júní sl. voru staddir hér á landi á vegum Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, þrír gestir frá Bretlandseyjum, tveir Skotar og einn Norður-Íri. Tilgangurinn með heimsókn þeirra var að miðla Íslendingum af reynslu heimabyggða sinna af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem þær hafa búið við í á fjórða áratug. Reynslan af fiskveiðistjórnun sambandsins er vægast sagt hörmuleg og hefur hún gengt lykilhlutverki í leggja stærstan hluta sjávarútvegar aðallega í Skotlandi í rústir. Skoski fiskveiðiflotinn er í dag aðeins þriðjungur af því sem hann var þegar Bretland gekk í forvera Evrópusambandsins, aflaheimildir Skota hafa dregist stórkostlega saman og enn koma fyrirmæli frá Brussel um að skera verði sífellt meira niður.

Þarna voru á ferðinni þeir dr. James Wilkie sem er menntaður í stjórnskipunarrétti og hefur sinnt ráðgjafastörfum fyrir austurísk stjórnvöld á sviði utanríkismála og fyrir skosk útgerðasamtök vegna sameignlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Í dag starfar hann fyrir iðnaðar- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Leslie Girvin sem er varaformaður bresku sjómannasamtakanna FAL og sömuleiðis varaformaður útgerðarsamtakanna NIFPO á Norður-Írlandi. Hann hefur stundað sjómennsku í hartnær hálfa öld og rekur í dag útgerð á Norður-Írlandi. Og loks Peter Adams sem er framkvæmdastjóri breska stjórnmálaflokksins UK Independence Party í Skotlandi.

ESB hefur alltaf lokaorðið
Bresku gestirnir funduðu með ýmsum forystumönnum hér á landi á meðan á heimsókn þeirra stóð, bæði í atvinnulífinu og í stjórnmálunum, og héldu síðan framsögur á vel sóttum fundi Heimssýnar sem fram fór í Háskóla Íslands 16. júní. Fjölmargt fróðlegt kom fram í máli þeirra en rauði þráðurinn var sá að engar líkur væru á því að Íslendingar fengju einhverja sérmeðferð í sjávarútvegsmálum eða öðru ef þeir sæktu um inngöngu í Evrópusambandið í neinu sem máli skipti. Þeir gáfu ekkert fyrir fréttir um að hugsanlega stæði til að draga eitthvað úr miðstýringu innan sambandsins í sjávarútvegsmálum og færa vald til svæðisráða þar sem hagsmunaaðilar gætu komið meira að ákvarðanatökum.

Þeir bentu á að ráðamenn í Brussel hefðu alltaf lokaorðið í sjávarútvegsmálum innan Evrópusambandsins, m.a. vegna þess að samkvæmt Amsterdam-sáttmála sambandsins kæmi skýrt fram að allt vald sem framselt væri til þess frá ríkjum þess gæti aldrei farið til baka aftur. Að færa völd frá Evrópusambandinu til ríkja sambandsins eða annarra aðila innan ríkjanna væri einfaldlega brot á sáttmálanum. Það gæti því aldrei gerst. Það sem í mesta lagi gæti gerst væri að ákvarðanir væru að nafninu til teknar af slíkum aðilum en í raun væri þegar búið að leggja línurnar fyrir þær í Brussel. Lokaorðið yrði þannig alltaf hjá ráðamönnum Evrópusambandsins.

Engin trygging í hlutfallslegum stöðugleika
Bretarnir vöktu athygli á því að lykilatriðið í öllum sáttmálum og lagasetningu Evrópusambandsins, þ.m.t. í sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, væri jafn aðgangur að sameiginlegum auðlindum. „Sameiginlegt“ í skilningi sambandsins þýddi það sem tilheyrði öllum. Íslenska fiskveiðilögsagan heyrði sögunni til ef Ísland gengi í Evrópusambandið og yrði eftirleiðis aðeins hluti af sameiginlegri lögsögu sambandsins. Regluna um svokallaðan hlutfallslegan stöðugleika væri hvergi að finna í sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins enda væri hún aðeins hugsuð sem tímabundið fyrirkomulag. Það segði sig væntanlega sjálft að slík regla, sem kveður á forgang ríkja að miðum í ljósi sögulegrar reynslu, kæmi illa heim og saman við jafnan aðgang að sameiginlegri auðlind.

Þeir sögðu að ákvarðanir Evrópusambandsins um að skera sífellt niður breska fiskveiðiflotann og aflaheimildir þeirra undanfarin ár og áratugi væru ekki byggðar á vísindalegum grunni heldur hefði verið um pólitískar ákvarðanir að ræða. Markmiðið væri að draga nógu mikið úr veiðigetu Breta til þess að þeir gætu ekki veitt allan kvóta við Bretland. Þannig væri hægt að koma aflaheimildunum til útgerða í öðrum ríkjum Evrópusambandsins og uppfylla smám saman grundvallaratriði sjávarútvegsstefnunnar um sameiginlegan aðgang. Þetta hefði gerst í miklum mæli og væri í dag stór hluti breskra aflaheimilda í eigu aðallega spænskra og hollenskra útgerðaraðila. Ástæðan væri sú að gjöful fiskimið hefðu verið við Bretland og væru enn að stóru leyti en búið væri að rústa flestum öðrum miðum innan sambandsins.

Einskis nýt efnahagsleg tengsl
Bretarnir fjölluðu um tilraunir breskra stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir færslu breskra aflaheimilda til annarra ríkja innan Evrópusambandsins. Það hefði tekið fimm ára réttarhöld og að lokum hefði Hæstiréttur Evrópusambandsins (European Court of Justice) komist að þeirri niðurstöðu að Bretar gætu ekki meinað útgerðum frá öðrum ríkjum sambandsins að kaupa breskar aflaheimildir, enda úrskurðaði dómstóllinn ávallt í þágu aukins samruna innan þess. Svo bresk stjórnvöld gætu haldið andlitinu var þeim heimilað að setja reglur sem kveða á um ákveðin efnahagsleg tengsl þeirra skipa sem stunda fiskveiðar við Bretland við landið. Aðeins þarfi þó að uppfylla eitt skilyrði um slík tengsl af nokkrum. Eitt þeirra er að landa þurfi a.m.k. tvisvar á ári í breskri höfn. Þetta geri erlendu skipin, landa tvisvar á ári einhverju lítilræði og landa síðan að öðru leyti í heimalandi útgerðarinnar.

Þeir sögðu ennfremur frá því að nýlega hefðu verið opinberuð í Bretlandi gögn þar sem fram kemur að Edward Heath, sem var forsætisráðherra Breta þegar þeir gengu í forvera Evrópusambandsins, hafi verið fullkunnugt um að langtímamarkmið Evrópusamrunans væri að skapa eitt ríki og ennfremur að þátttaka í honum myndi að lokum ganga að breskum sjávarútvegi dauðum. Viðbrögð Heath voru þau að segja að sjávarútveginum væri fórnandi fyrir stærri hagsmuni eða það sem hann kaus að kalla „the greater good“.

Einungis aðlögunartími í boði
Spurðir að því hvort Íslendingar gætu ekki breytt sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins innanfrá sögðu þeir því miður engar líkur á því. Bentu þeir m.a. á í þeim efnum að Bretar hefðu verið í sambandinu og forvera þess í hátt í fjóra áratugi og allar götur síðan reynt að breyta stefnunni en án alls árangurs. Þó væru Bretar eitt stærsta ríki Evrópusambandsins og með vægi innan þess eftir því.

Þeir bentu á að Bretar hefðu fengið tíu ára aðlögunartíma að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þegar þeir gengu forvera þess í byrjun 8. áratugarins. Í fyrstu hefði lítið sem ekkert breyst en að þeim tíma liðnum hefði stefnan lent á þeim með fullum þunga. Það væri það eina sem Íslendingum gæti staðið til boða, tímabundinn aðlögunartími líkt og Norðmönnum var boðinn á sínum tíma.

Að lokum hvöttu bresku gestirnir Íslendinga til þess að gera ekki sömu mistök og Bretar gerðu á sínum tíma.