Pundið sigrar evruna í Bretlandi

Þeir örfáu bresku stjórnmálamenn sem töldu fyrir nokkrum árum að evran væri gjaldmiðill er hentaði Bretum eru flestir búinir að snúa við blaðinu í góðum anda Ragnars Reykáss. Bloggarinn Haraldur Hansson dregur upp bráðskemmtilega mynd af breskri evru-umræðu.

 

Lord Mandelson

Lávarðurinn Peter Mandelson er fyrrverandi viðskiptaráðherra Evrópuríkisins (EU commissioner for trade). Hann var ákafur talsmaður þess að Bretar hættu að nota pundið og tækju upp evruna. En núna í kreppunni hefur hann tekið Reykás-snúning og er þakklátur fyrir að hafa breska sterlingspundið, réttilega. Þetta sagði hann þá og nú:   

Að standa utan evrusamstarfsins þýðir einangrun fyrir Bretland og torveldar efnahagslegar framfarir. Það þýðir að færri erlend fyrirtæki fjárfesta í landinu, færri góð störf skapast og viðskipti verða minni við evrópska samherja okkar.
Meðan við notum aðra mynt en hin Evrópuríkin er það eins og að stunda viðskipti með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. 
          Lord Peter Mandelson, 18. maí 2003.

Samkeppnishæfni pundsins hjálpar útflutningsgreinum okkar og bætir samkeppnismöguleika innlendrar framleiðslu í Bretlandi.
          Lord Peter Mandelson, janúar 2010.

Nick Clegg

Annar breskur Reykás er Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sem eiga hluta að nýju samsteypustjórninni í Bretlandi. Hann gerði á sínum tíma grín að þeim sem vildu halda í pundið “af tilfinningalegum ástæðum”. En núna þegar öllum er ljóst að evran er þýsk/frönsk mynt, sem er sem myllusteinn um háls annarra ríkja tekur hann eigin mynt framyfir evruna. Þetta sagði hann þá og nú:
 

Ef við stöndum utan evrunnar munum við einfaldlega færast í átt til fátæktar og óskilvirkni í samanburði við evrópska nágranna sem búa við meiri hagsæld. Samt haldið þið að slíkt hlutskipti sé ásættanlegt í skiptum fyrir tilfinningaleg rök um að halda tilgangslausri stjórn á okkar eigin stýrivöxtum. 
          Nick Clegg, 2001.


Ég held að evran sé ekki málið núna. Ég geng jafnvel lengra og segi að vextir á evrusvæðinu undanfarin ár hefðu ekki verið góðir fyrir breskan efnahag. Ég játa það að evruvextir undanfarin ár hefðu verið rangir fyrir Bretland.
          Nick Clegg, 7. apríl 2010.

 

Hlutlaus rannsókn sérfræðinga í Bretlandi (think tank) gaf þá niðurstöðu að ef Bretar hefðu gert þau mistök að taka upp evuna á sínum tíma væri fjöldi atvinnulausra í landinu allt að 40% hærri en hann er og þykir mönnum þó atvinnuleysið nóg. Ekki að furða að menn vilji ekki gangast við þýsk/frönsku myntinni í dag, þessari sömu og Össur boðar sem allra meina bót.