Rétt innleiðing ræður hraða samningaviðræðna

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og sá ráðherra sem fer með samningamál við ESB, heldur því fram að engin aðlögun, öðru orði innleiðing, að regluverki ESB eigi að hefjast fyrr en samningaviðræðum sé lokið og þjóðin hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu. Í ljósi þessa er merkilegt að lesa eftirfarandi í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem lögð var fyrir ríkjaráðstefnu ESB ríkjanna 27. júlí í sumar (undirstrikanir greinarhöfundar):

33. liður: Farið verður fram á það við Ísland að það tilgreini afstöðu sína með tilliti til regluverksins (regluverks ESB, innskot mitt) og geri grein fyrir því hve vel miði áfram við að uppfylla viðmiðanirnar. Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þ.m.t. árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála, mun ákvarða hversu hratt samningaviðræður ganga fyrir sig.

Miðað við yfirlýsingu Össurar þá mun hraði samningaviðræðnanna við ESB ganga ansi hægt fyrir sig, sennilega vera í kyrrstöðu þar sem engin aðlögun verður í gangi á samningstímanum. Það er þetta með eggið og hænuna. Þetta sýnir svart á hvítu nauðsyn þess að best er að draga umsóknina um aðild til baka án tafar. Svona handabakavinnubrögð eru landi og þjóð til skammar.

Eða getur það virkilega verið að Össur sé svona illa lesinn að hann hafi ekki lesið skýrsluna sem framkvæmdastjórn ESB lagði fyrir ríkjaráðstefnuna? Alla vega er ljóst að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lesið vel heima – því hann veit að aðlögun að regluverki ESB þarf að standa yfir á samningstímanum.

Annað er svo hvort við teljum slíka aðlögun eðlilega fyrr en þjóðin hefur fengið að kveða upp sinn dóm. En vandinn er bara sá að ESB býður ekki upp á annan kost þar sem sambandið gerir ráð fyrir að þeir sem sæki um aðild ætli og vilji ganga sambandinu á hönd. Og í þessu liggur hundurinn grafinn.

Sjá vefsíðu Jóns Baldurs.