RÚV þarf að segja allan sannleikann

Jón Baldur L'OrangeEftir Jón Baldur L’Orange

Það er í sjálfu sér jákvætt að kynna áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu í Ríkissjónvarpinu. Þá verðum við að gera kröfu til þess að sú kynning sé hlutlaus og að báðar hliðar komi fram. Já, bæði kostir og gallar. Þeir sem vilja að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu vilja að sjálfsögðu kynna fyrir landsmönnum, og hugsanlegum kjósendum, af hverju þeir telja það farsælt fyrir þjóðina að verða hluti af Evrópusambandinu. Evrópusambandið vill sömuleiðis kynna sambandið með þeim hætti sem því hentar best. Til þessa hafa þeir sett mikla fjármuni í kynningarstarf hér á landi, og boðið fjölmiðlum styrki til að þessarar kynningar.

Landinn, sem er þjóðmálaþáttur sem leggur áherslu á að kynna okkur landsbyggðina, er allt í einu farinn að taka upp á því að kynna Evrópusambandið. Meira segja er fréttamaður sendur til Brussel í þeim erindagjörðum. Er Brussel á landsbyggðinni? Eða á Brussel sérstakt erindi við landsbyggðina? Öll vönduð kynning á ESB er góð ef þess er gætt að hún sé hlutlaus og kynni allar hliðar málsins. Þar þarf RÚV að ganga á undan með góðu fordæmi.

Það er rétt hjá Birni Bjarnasyni að byggðastefna Evrópusambandsins hefur verið sett upp sem gulrót af aðildarsinnum fyrir landsbyggðarfólk. Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þá muni milljarðar renna til landsbyggðar í uppbyggingu. Hvað er rétt í því? Þeir sem horfðu á kynningu Landans á byggðastefnu Evrópusambandsins voru í raun engu nær eftir þáttinn um hvort þetta væri rétt. Þó var efnið sett þannig upp að það mátti skilja það svo að Evrópusambandið væri umhugsað um byggðaröskun og markmið þess væri að hamla gegn henni – líka á Íslandi. Síðan var endað á slitna frasanum frá aðildarsinnum ,,að þetta komi þó ekki í ljós fyrr en aðildarsamningur væri í höfn”. Skilaboðin voru skýr til áhorfenda. Klárum samningaviðræðurnar við Evrópusambandið og það væri aldrei að vita hvað út úr þeim kæmi. Það væri aldrei að vita en að fólk á landsbyggðinni fengi feita tékka frá Brussel – ef við gerðumst aðilar að klúbbnum.

Hins vegar held ég að þeir sem hafa horft á þáttinn með gagnrýnum huga hafi áttað sig á því að engir fjármunir kæmu frá Evrópusambandinu til Ísland í gegnum byggðastyrki, enda er meðaltekjur hér á landi ekki undir 75% af meðaltekjum á hvern íbúa innan sambandsins. Það er grunnforsenda þess að hægt sé að greiða slíka styrki til ákveðinna svæða innan ríkja ESB. Það var einmitt sýnt kort í þættinum sem sýni hvert dreifbýlisþróunarstyrkirnar færu, eða til Austur- og Suður-Evrópu. Það var kannski ekkert rangt í kynningu RÚV á byggðastefnu ESB. En það þarf að segja allan sannleikann. Þar liggur munurinn á hlutlausri kynningu og áróðri. Það sem ekki var sagt í þættinum var þetta:

Ísland mun greiða 15 milljarða í árgjald til Evrópusambandsins. Ísland verður nettógreiðandi. Það þýðir að við borgum meira til Evrópusambandsins en mun koma til baka til Íslands aftur af því skattfé sem rennur til Brussel. Þess vegna mun landsbyggðarfólk, sérstaklega í sjávarbyggðum, greiða byggðastyrki til Brussel en ekki öfugt. Þetta hefði mátt koma frá í Landanum á RÚV. 

Svo geta lesendur kynnt sér nýjustu fréttir um sjávarútvegsstefnu ESB hér að ofan, þar sem kemur fram að ekki stendur til að banna brottkast í lögsögu ESB ríkja og að leitað sé leiða til að koma í veg fyrir ofveiði flota ESB. En þessu munu Íslendingar öllu breyta þegar Össur er sestur við borðið.

Textinn er af bloggsíðu Jóns