Samskipti Noregs og Liechtenstein við ESB áfram byggð á EES-samningnum

Stjórnvöld Noregs og Leichtenstein eru sammála um að halda áfram með samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) jafnvel þó til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið. Þetta var niðurstaða fundar Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Leichtenstein, á fundi þeirra tveggja í Madrid á Spáni í vikunni.

Í frétt um málið á norsku fréttasíðunni E24.no er vitnað í viðtal við Störe sem segir að ráðherrarnir hafi rætt ítarlega um þá stöðu sem kynni að koma upp ef Ísland sækti um inngöngu í Evrópusambandið. „Bæði löndin eru sammála um að EES-samningurinn verði áfram tenging þeirra við Evrópusambandið,” sagði Störe.

Báðir utanríkisráðherrarnir vildu einnig undirstrika að þótt Ísland færi í viðræður um inngöngu í Evrópusambandið væri landið áfram aðili að EES-samningnum þar til niðurstaða um hvort af inngöngu yrði eða ekki lægi fyrir.

Heimild:
Noregur og Leichtenstein verða áfram í EES (Vísir.is 14/05/09)