Seðlabanki ESB óttast nýja bankakrísu á næsta ári

Breska dagblaðið Daily Telegraph fjallaði um það nýverið að Seðlabanki Evrópusambandsins fylgdist náið með vaxandi erfiðleikum 25 banka á evrusvæðinu sem taldir eru skipta sköpum fyrir efnahagsleg afdrif svæðisins. Bankinn óttist aðra bankakrísu á svæðinu á næsta árið dragist efnahagskreppan á langinn. Dejan Krusec, sérfræðingur bankans í efnahagslegum stöðugleika, sagði bankana nógu sterka til þess að lifa af núverandi niðursveiflu en ekki ef það tekur lengri tíma að koma efnahagslífinu aftur í gang.

„Vandamálið er ekki 2009, bankar á evrusvæðinu eru vel fjármagnaðir til þess takast á við tap. Vandamálið er 2010. Við höfum áhyggjur af lengd [enahagskreppunnar],“ sagði Krusec.

Seðlabanki Evrópusambandsins gerir ekki ráð fyrir að efnahagslíf evrusvæðisins fari að rétta úr kútnum fyrr en um mitt ár 2010. Bankinn er því að undirbúa sig fyrir aukin vandamál á næsta ári. Piroska Nagy, ráðgjafi hjá Evrópska þróunarbankanum, segir að hætta sé á því að vestur-evrópskir bankar flýji frá Austur-Evrópu sem gæti leitt til hruns bankageirans þar.

Daily Telegraph segir að það sé engin töfralausn fyrir Austur-Evrópu. „Það verður erfiðara fyrir þá að komast út úr þessum vandamálum með auknum útflutningi en fyrir Austur-Asíu í krísunni árið 1998,“ er haft eftir Edward Parker hjá matsfyrirtækinu Fitch. Í þetta sinn sé allur heimurinn í niðursveiflu. Því til viðbótar séu Lettland, Eistland og Búlgaría föst í gjaldmiðilssambandi við evruna sem sé allof hátt skráð fyrir þessi ríki. Afleiðingin yrði mjög hörð lending.

Heimild:
ECB fears bank crisis in 2010 as recession drags on (Telegraph.co.uk 10/06/09)