Segir að Svíþjóð sé ekki lengur sjálfstætt ríki

Með því að taka þátt í kosningum til þings Evrópusambandsins, sem hefur mikil og vaxandi völd yfir sænskum málum, eru Svíar að leggja blessun sína yfir það að Svíþjóð sé ekki lengur sjálfstætt ríki heldur aðeins kjördæmi innan sambandsins. Þetta segir Johan Hakelius, dálkahöfundur hjá sænska dagblaðinu Aftonbladet, í blaðinu í dag, en kosningar til Evrópusambandsþingsins fara fram í Svíþjóð þann 7. júní nk.

Hakelius bendir á að eftir kosningarnar muni 736 fulltrúar sitja á þinginu og þar af verði aðeins 18 kosnir af Svíum eða 2,4% þeirra. Hinum 718 fulltrúunum, eða 97,6%, hafi sænskir kjósendur ekkert vald yfir. Hann segir þetta hliðstætt og ef Svíar kysu aðeins 9 af þeim 349 fulltrúum sem sitja á sænska þinginu en afganginn kysu einhverjir aðrir.

 
Hann tekur sem dæmi að sænska kjördæmið Kalmar hafi 8 fulltrúa á sænska þinginu og geti ekki haft nein áhrif á það hverja önnur kjördæmi velja á þingið. Svíþjóð sé í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart kosningunum til Evrópusambandsþingsins. Svíþjóð eigi þó að heita sjálfstætt og fullvalda ríki en vitanlega sé Kalmar það ekki.
 
Hakelius segir síðan að þetta þýði einfaldlega að það sé Evrópusambandið en ekki Svíþjóð sem sé sjálfstætt ríki. Sé Svíþjóð stjórnað af þingi þar sem 97,6% fulltrúanna eru kosin af öðrum en sænskum kjósendum þá sé landið einfaldlega alveg eins ósjálfstætt og Kalmar. Hann spyr síðan að því hvenær Svíar hafi samþykkt þetta.
 
Einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar að Svíþjóð eigi aðeins að vera fylki innan Evrópusambandsins segir Hakelius ennfremur. En Svíar geti hins vegar ekki látið áfram eins og þeir búi í sjálfstæðu ríki á sama tíma og þeir færa sífellt meira vald yfir eigin málum til þings þar sem þeir hafa aðeins 2,4% fulltrúanna.
 
Sjálfur segist Hakelius vera hlynntur Evrópusambandi sem byggi á samstarfi sjálfstæðra Evrópuríkja en til þess þurfi ekkert Evrópusambandsþing. Slíkt þing sé aðeins ávísun á það að Svíar glati yfirráðum yfir eigin málum. Stefnumótunin sé ákveðin af öðrum en Svíum sem hafi aðeins 2,4% vægi í því sambandi.
 
Hakelius segir að mikil þátttaka í kosningunum til Evrópusambandsþingsins verði notuð sem réttlæting fyrir því að færa enn meiri völd til þess frá ríkjum Evrópusambandsins. Lítil þátttaka muni hins vegar veikja þingið. En það sé sjálfsagt að þeir Svíar taki þátt í kosningunum sem eru reiðubúnir að leggja blessun sína yfir það að Svíþjóð sé eins ósjálfstætt og Kalmar.

Heimild:
Segir að Svíar ættu ekki að kjósa til ESB-þingsins (Efrettir.is 29/05/09)