Segir evruna dauðadæmda án Bandaríkja Evrópu

Eitt stærsta fjármálafyrirtæki heimsins, Citigroup, hefur varað viðskiptavini sína við því að evran sé dauðadæmd, jafnvel þó það takist að leysa úr efnahagsvanda Grikklands, verði Evrópusambandinu ekki endanlega breytt í eitt ríki, Bandaríki Evrópu, m.a. með sameiginlegan ríkissjóð. “Án vilja hjá stærri ríkjunum – einkum Þýskalandi – til þess að stefna í þessa átt óttumst við óhjákvæmileg endalok evrunnar,” segir m.a. í minnisblaði frá fyrirtækinu.

Í umfjöllun fréttavefsins Euobserver.com um málið eru rifjuð upp ummæli fjárfestisins George Soros frá því í febrúar sl. þar sem hann sagði að þó hugsanlega væri hægt að koma Grikklandi til bjargar í efnahagshremmingum þeirra þá væru Spánn, Portúgal, Ítalía og Írland eftir og þeim yrði ekki bjargað með sama hætti. Jafnvel þó vandi Grikkja yrði leystur væri framtíð evrunnar áfram óljós.

Soros sagði ennfremur að evran væri gölluð, gjaldmiðill þurfi bæði á seðlabanka að halda og ríkissjóði. Þetta væri vel þekkt staðreynd og hefði átt að vera öllum ljóst sem komu að því að skapa evruna.

Heimildir:
Citigroup says only ‘United States of Europe’ will save euro (Euobserver.com 21/04/10)
Euro ‘Doomed’ Without Fiscal, Political Unity, Citigroup Says (Businessweek.com 20/04/10)