Segja evruna í stórhættu vegna stöðu mála á Spáni

Sérfræðingar hafa auknar áhyggjur af stöðu evrunnar eftir að lánshæfismat Spánar var lækkað sl. föstudag. Ekki var tilkynnt um lækkunina fyrr en eftir lokun fjármálamarkaðanna á Spáni og því er ekki að vænta viðbragða þeirra fyrr en á morgun mánudag þegar þeir opna á ný. Spánverjar hafa átt í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum og telja margir að landið sé á sömu leið og Grikkland. Telja sérfræðingar horfurnar mjög slæmar sem gerir það að verkum að tiltrú á evrunni fer minnkandi.

Meðal þess sem Spánverjar glíma við er að stórir spænskir bankar eru í miklum vandræðum og hefur spænska ríkið þegar þurft að þjóðnýta nokkra banka. Þá nýtur forsætisráðherra Spánar minnkandi stuðnings auk þess sem spænsk verkalýðsfélög hóta allsherjarverkfalli. Ofan á þetta bætast áhyggjur annarra evruríkja, s.s. Frakka, af því að vandræði Spánar gætu smitað út frá sér og haft alvarleg áhrif á efnahagsástandið innan þeirra.

Heimild:
Sérfræðingar telja evruna í stórhættu vegna Spánar (Vísir.is 30/05/10)