Sértrúarsöfnuðurinn ESB-sinnar

Páll Vilhjálmsson

eftir Pál Vilhjálmsson

Einkenni sértrúarsöfnuða er að dauðahald í kreddur og kennisetningar sem veruleikinn hefur afhjúpað sem kjánaskap og vitleysu. ESB-sinnar á Íslandi eru haldnir þessu einkenni í ríkum mæli. Evrópusambandið sem Ísland sótti um aðild að 16. júlí 2009 er ekki lengur til. Klofningur er staðfestur milli þeirra tíu ESB-ríkja sem standa utan evru-samstarfsins og hinna  17 sem nota evru sem lögeyri.

Evrópusambandið er í upplausn; Bretar beita neitunarvaldi gegn því að evruríkin 17 leggi allt Evrópusambandið undir sig; smáríkið Grikkland stundar fjárkúgun þar sem upplausn evru-svæðisins er í húfi fái Grikkir ekki  lán sem þeir munu aldrei geta borgað tilbaka; Þjóðverjar heimta aukna miðstýringu á ríkisfjármálum allra aðildarríkja ef þeir eiga að borga draga gjaldþrota Suður-Evrópuríki að landi.

Vaxandi samstaða er meðal álitsgjafa, hagfræðinga og stjórnmálamanna í Evrópu að evran beinlínis stuðli að ójafnvægi í efnahagsbúskap aðildarríkja.  Til skamms tíma var litið á Þýskaland og Frakkland sem tvíeykið er drægi ESB-vagninn.  Hagvísar þessara stórvelda Evrópusambandsins stefna í andstæðar áttir. Atvinnuleysi minnkar í Þýskalandi, opinberar skuldir lækka og hagvöxtur eykst. Í Frakklandi eykst atvinnuleysi, opinberar skuldir hækka og það dregur úr hagvexti. Málsmetandi hagfræðingar og stjórnmálamenn í Frakklandi telja að við svo búið megi ekki standa – þjóðarhagsmunum Frakklands sé ógnað með evrunni.

Ábyrgðaraðilar Evrópusambandsins segja ítrekað að evran og Evrópusambandið verði að haldast hönd í hönd; falli evran fellur Evrópusambandi. Af þessu leiðir óhjákvæmilega að aðeins tveir möguleikar standa opnir Evrópusambandinu.

Í fyrsta lagi að bjarga evrunni með stóraukinni miðstýringu þar sem vald þjóðríkja til skattlagningar og fjárlaga er framselt til Brussel sem yrði höfuðborg nýs ríkis Stór-Evrópu. Í öðru lagi að vinda ofan af evrunni og þar með Evrópusambandinu.

Evrópusambandið mun fyrr heldur en seinna taka afstöðu til þessara tveggja kosta.  Hvorugur kosturinn er Íslendingum geðþekkur; við gætum aldrei orðið hluti af Stór-Evrópu meginlandsþjóðanna og algerlega tilgagnslaust er að sækjast eftir aðild að félagsskap sem ætlar að leggja sjálfan sig niður, verði það ofaná.

Sértrúarsöfnuður ESB-sinna hér á landi stingur höfðinu í sandinn og ræðir ekki grafalvarlega stöðu evrunnar og Evrópusambandsins. Ábyrgðaraðilar umsóknar Íslands standa ekki fyrir neinni umræðu um stöðu Evrópusambandsins og framtíðarhorfur.

Innan við þriðjungur þjóðarinnar kaus Samfylkinguna, sem síðustu þingkosningar bauð einn flokka aðild að Evrópusambandinu sem lausn við helstu vandamálum lands og þjóðar. Þrír stjórnmálaflokkar: Vinstrihreyfingin grænt framboð, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru með það á stefnuskrá sinni að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.

Er ekki kominn tími til að taka utanríkismál lýðveldisins úr höndum sértrúarsöfnuðarins sem er með heimili og varnarþing í Samfylkingunni?

Greinin var birt í Morgunblaðinu 10. feb 2012