Sífellt færri Danir vilja skipta dönsku krónunni út fyrir evru

Leita þarf aftur til ársins 2001 til að finna jafn lítinn stuðning á meðal Dana við að skipta dönsku krónunni út fyrir evruna og í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup fyrir danska dagblaðið Berlingske Tidende sem birtar voru í blaðinu í gær. Ef marka má þær skiptast Danir nú í tvær jafn stórar fylkingar með og á móti upptöku evrunnar. 42% vilja halda í krónuna á meðan 42% vilja taka upp evru.

Í sambærilegri skoðanakönnun Gallup í nóvember á síðasta ári vildu 51% aðspurðra skipta krónunni út fyrir evru. Stuðningur við evruna hefur sífellt farið minnkandi að undanförnu ef marka má kannanir. Í lok janúar voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar fyrir Danske Bank þar sem kom fram að 41,1% studdu upptöku evrunnar en 38,8% voru því andvíg.

Dönsk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til þess að halda nýtt þjóðaratkvæði um evruna í Danmörku og hefur verið talað um að það gæti farið fram annað hvort á næsta ári eða 2011. Minnkandi stuðningur við evruna á meðal Dana gæti þó sett stórt strik í reikninginn í þeim áætlunum. Danir höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæði árið 2000 og þar áður ásamt Maastricht-sáttmálanum árið 1993.

Heimildir:
Vil du skifte kronen ud med euro? (Bt.dk 11/02/09)
Evruáhugi Dana minnkar (Amx.is 21/01/09)
Danish euro referendum, 2000 (Wikipedia.org skoðað 12/02/09)