Sjálfskipaðir ESB leiðtogar

Forystumenn í samtökum atvinnulífs, iðnrekenda og verkalýðshreyfingar hafa að undanförnu tekið sér forystu í að leiða íslenska þjóð inn í Evrópusambandið. Vissulega er öllum þessum mætu mönnum frjálst að hafa skoðanir á þessu máli en ég dreg stórlega í efa umboð þeirra til að tala hér fyrir munn sinna aðildarsamtaka og aðildarfélaga. Fulltrúar og  stjórnir í þeim samtökum sem hér um ræðir eru í fæstum tilvikum kjörnir til starfa út frá afstöðu til almennra þjóðmála. Hér er um að ræða hagsmunasamtök sem ætlað er að verja hag viðkomandi hópa innan þess ramma sem Alþingi og ríkisstjórn skapa. Um almenna afstöðu til þjóðmála er aðeins kosið í Alþingiskosningum.

Mikill minnihluti almennra launþega kemur að  kjöri forystumanna stóru heildarsamtaka launamanna og sama á reyndar við í hópi okkar atvinnurekenda í landinu. Því fer fjarri að hagsmunir okkar og skoðanir séu einsleitar í þessum efnum og staðreyndin er sú að umrædd félög hafa sum hver, fyrst og fremst tengsl við sína aðildarmenn í gegnum skattheimtu félagsgjalda. Einu almennu kosningarnir þar sem tekist er á um þessi mál eru kosningar til Alþingis. Og það er engin tilviljun að mikill meirihluti Alþingismanna vill  líkt og þjóðin sjálf standa vörð um fullveldi og frelsi landsins. Mál þetta er mun stærra en svo að hægt sé að horfa á það í þröngu samhengi og út frá stundarhagsmunum. Mjög margt bendir til þess að Evrópusambandið sé sökkvandi skip þó svo að vissulega valdi stærðin því að það sökkvi heldur hægar en okkar ágæta land. Að sama skapi er mjög líklegt að stærðin geri það verkum að Evrópusambandið verði mjög lengi að ná sér á strik á nýjan leik en smæðin og sveiganleikinn er okkar styrkleiki. Það er einnig umhugsunarvert að þau Evrópulönd sem best standa eru löndin sem eru utan ESB, Noregur og Sviss. Þar er atvinnuleysi til muna minna en almennt gerist á ESB svæðinu og hagvöxtur meiri.

Tækifæri  okkar  liggja ekki hvað síst í samningum og viðskiptum við þjóðir utan  ESB t.d. við Kína, Indland og Rússland. Sem sjálfstæð þjóð höfum við mikið  meira aðdráttarafl og sveiganleika t.d. í fríverslunarsamningum. Slíkir samningar eru á döfinni m.a. við Kína og geta þeir opnað alveg nýjar dyr fyrir land og þjóð svo fremi sem við höfum burði til að hugsa út fyrir rammann og vilja til að bjarga okkur á eigin forsendum. Að vonast til þess að til að mynda Bretar og Danir séu betri kostur til að gæta hagsmuna Íslendinga við samningaborð í Brussel  heldur en landsmenn einir og sér lýsir  mikilli minnimáttarkennd. Að vonast til að Íslendingar muni hafa afgerandi áhrif í kokteilboðum í Brussel þannig að hagmunir okkar vegi þyngra en annara þjóða, lýsir hins vegar vafasömu mikilmennskubrjálæði. Greinarhöfundur er m.a. atvinnurekandi með evrulán, stundarhagsmunir hans félaga réttlæta hins vegar ekki að fórna heilli þjóð á altari ESB.

Benedikt G. Guðmundsson,
framkvæmdastjóri

(Birtist áður í Morgunblaðinu 9. nóvember 2008)