Skugga verði ekki varpað á hátíðarhöldin 17. júní

Allir fulltrúar í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur utan einn samþykktu bókun í dag þar sem þeirri ósk er beint til ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að formleg ákvörðun verðir ekki tekin á þjóðhátíðardag Íslands um að hefja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið, en jafnvel er búist við að slík ákvörðun verði tekin á fundi leiðtogaráðs sambandsins sem fram fer 17. júní nk. Stefán Jóhann Stefánsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, lagði bókunina fram en hinn fulltrúi flokksins, Oddný Sturludóttir, var ein um að leggjast gegn henni.

Bókunin hljóðar svo: “Þeirri ósk er beint til Ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að skugga verði ekki varpað á hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Íslendinga með því að að ákveðið verði að hefja aðildarviðræður á milli Íslands og Evrópusambandsins á þeim degi. Hér er um viðkvæmt deilumál að ræða og minna má á að meirihluti þjóðarinnar hefur lýst sig andvígan aðild að sambandinu.”

Þess má geta að óvíst er enn hvort Ísland verði á dagskrá fundar leiðtogaráðs ESB en eins og kunnugt er hefur sambandið vægast sagt um nóg annað að hugsa þessa dagana þegar evran berst fyrir lífi sínu.

Heimild:
Varpi ekki skugga á 17. júní (Mbl.is 21/05/10)