Stiglitz: Evran slæm hugmynd fyrir Íslendinga

Evran hentaði Íslendingum ekki að mati Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði og prófessors við Columbia háskóla í Bandaríkjunum. Þetta er á meðal þess sem kom fram í máli hans í viðtali í Silfri Egils í dag. Hann sagði það hafa komið sér vel fyrir Íslendinga að hafa krónuna á þessum erfiðu tímum. Lítil hagkerfi þyrftu svigrúm og að geta aðlagast hratt breyttum aðstæðum, sérstaklega þegar stór áföll yrðu. Íslenska krónan væri tæki sem gerði slíkt mögulegt. Ef gengi hennar hefði ekki gefið eftir hefði atvinnuleysi t.a.m. að öllum líkindum orðið mun meira en raunin hefur orðið auk þess sem það hefði komið sér illa fyrir ferðamannaiðnaðinn.

Stiglitz sagði að Svíar hefðu hafnað evrunni á sínum tíma vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir því að sænska krónan veitti þeim meiri stöðugleika en evran. Það yrði að hafa í huga að gengisstöðugleiki væri ekki allt. Stöðugleiki á einu sviði skapaði óstöðugleika á öðru. Stöðugleiki í gengismálum væri t.a.m. ávísun á óstöðugleika á atvinnumarkaði og leiddi til aukins atvinnuleysis. Þetta snerist um kosti og galla. Mikilvægt væri að hámarka verðmæti auðlinda og það gilti ekki síst um vinnumarkaðinn, að tryggja að sem flestir hefðu vinnu.

Heimildir:
Stiglitz: Hræðsluáróður AGS tóm vitleysa (Dv.is 06/09/09)
Stiglitz fundar með ráðherrum í dag
(Vísir.is 07/09/09)