Stiglitz segir framtíð evru í hættu

Einn virtasti hagfræðingur í heimi, Joseph Stiglitz, telur framtríð evrunnar í uppnámi og að evrópskt hagkerfi verði lengi að koma sér upp úr kreppunni. Varnaðarorðin lætur Stiglitz falla í endurútgáfu bókarinnar Freefall, sem fjallar um kreppuna sem hófst með undirmálslánum í Bandaríkjunum.

Stiglitz er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og var um tíma aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Hann varar við því að spákaupmenn muni næst ráðast á Spán sem er eitt af stærri þjóðarhagkerfum Evrópusambandsins.

Evran þjónar ekki hagsmunum þeirra ríkja sem glíma við viðskiptahalla og skuldir. ,,Þjóðir sem deila sameiginlegum gjaldmiðli gefa frá sér sveigjanleika til að takast á við efnahagslægðir,” er haft eftir Stiglitz í Telegraph.

Vegna stöðu ríkja eins og Írlands, Portúgal og Grikklands verður þrýstingur á evruna ef til vill meiri en myntsvæðið þolir. Stiglitz telur að jafnvel komi til greina að Þýskaland segi sig úr evru-samstarfinu og taki upp þýska markið. Í því tilviki myndi evran falla til samræmis við þarfir ríkja með stóran viðskiptahalla og veika samkeppnisstöðu.