Stjórnvöldum ber að halda fast við fyrri kröfur

Ályktun framkvæmdastjórnar Heimssýnar 23. október 2013

Heimssýn – hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, leggur áherslu á að ekki verði látið undan hótunum Evrópusambandsins í samningum um hlutdeild Íslands í heildar makrílveiði. Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16 -17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.

Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins  og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin. Þá leggja samtökin áherslu á að stjórnvöldum haldi fast við fyrri kröfur um aflahlutdeild í makríl.

Heimssýn skorar jafnframt á ríkisstjórnina að afturkalla þegar í stað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Framkvæmdastjórn Heimssýnar