,,Stofnanir okkar verða styrktar með fjárhagslegum stuðningi ESB”

Með fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi og samvinnu á grundvelli stuðningsáætlunar ESB við umsóknarríki munu stofnanir okkar verða styrktar enn frekar (16. liður að hluta).

Ríkisstjórn Íslands fellst á að regluverk ESB, eins og það er við aðild, myndi grundvöll aðildarviðræðnanna (17. liður að hluta).

Helstu markmið sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB eru í fullu samræmi við okkar markmið. Ísland hefur skilning á þörfinni fyrir sameiginlega sjávarútvegsstefnu í Evrópu og ekki þarf að líta nema einu sinni á Evrópukortið til að sjá að slík stefna er nauðsynleg. (28. liður).

Ofangreint er hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands til ESB sem lögð var fram á ríkjaráðstefnu ESB 27. júlí 2010. Þessi yfirlýsing hljómar sem hljómfögur sinfónía í eyrum kommissaranna í Brussel.

Hér játast Ísland undir regluverk ESB, tekur við fjárhagslegum stuðningi ESB til að styrkja stjórnsýsluna hér á landi enn frekar og samþykkir að sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB (sem vel að merkja er hluti af regluverki ESB) sé í ,,fullu samræmi við markmið” ríkisstjórnar Íslands.

Vissulega er að finna í yfirlýsingunni einnig marklaust orðagjálfur sem hljómar sem óþægilegt suð í eyrum kommissaranna í Brussel. Engan samhljóm er þar að finna við hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB (CFP). Íslensku samninganefndinni verður þess vegna fljótt bent á það í fullri vinsemd að hætta þeim söng enda slegin þar feilnóta í samrunaferli Íslands við ESB. Þá hlýtur slíkur söngur að vera falskur enda hefur ríkisstjórnin samþykkt regluverk ESB í grundvallaratriðum í orði. Með aðildarsamningi mun Ísland að gera það líka á borði.

Allt tal um að ESB ríkin 27 muni aðlaga sjávarútvegsstefnu sambandsins að þeirri íslensku minnir óþægilega á aðferðafræði aðildarsinna í Bretlandi til að fá hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að fallast á aðild Bretlands að ESB á sínum tíma. Í hvítbók þáverandi ríkisstjórnar, sem dreift var inn á hvert heimili á Bretlandseyjum, kom m.a. fram: ,,ESB (Community) hefur gert sér grein fyrir þörfinni að breyta sjávarútvegsstefnu sinni”. Hlljómar þetta eitthvað kunnuglega? Þegar Bretland hafði síðan gerst aðili þá náðist að sjálfsögðu ekkert samkomulag um neinar grundvallarbreytingar. Rétt er að minna á að þetta var fyrir um 40 árum síðan. Afleiðingarnar fyrir sjávarútveg í Skotlandi voru hrikalegar (sjá tengda grein hér að neðan).