Tálbeitan sem fáa lokkar lengur

Ragnar Arnalds

Eftir Ragnar Arnalds – birtist í MBL 16. febrúar 2012

Margir hafa verið ginnkeyptir fyrir upptöku evru. Það er skiljanlegt með hliðsjón af þeim miklu sveiflum sem verið hafa á íslensku krónunni. En fæstir hafa áttað sig á því að þegar mörg ríki sem búa við mjög mismunandi aðstæður taka upp sameiginlegan gjaldmiðil myndast fyrr en síðar háskalegt misvægi, vegna þess að sömu vextir og gengi henta ekki öllum ríkjunum.

Þegar evran var sett á flot fyrir rúmum áratug var það gert í þeim póltíska tilgangi að efla ESB og lokka inn sem flest ríki. Þá vöruðu fjölmargir hagfræðingar við því að illa gæti til tekist ef ekki fylgdi annað með, m.a. samræmd stefna í efnahags- og fjármálum. Þessar hrakspár hafa nú ræst. Flestir virðast sammála um að evrukerfið sé meingallað. Gjaldmiðill sem aldrei tekur nokkurt mið af sveiflum sem verða í viðskiptakjörum, útflutningstekjum og almennri afkomu aðildarríkis verður á endanum hengingaról viðkomandi hagkerfis. Þetta er einmitt það sem gerst hefur í ýmsum ríkjum evrusvæðisins, einkum á jaðarsvæðum. Þjóðverjar stjórna evrusvæðinu og evran lagar sig ágætlega að þörfum þeirra. En jaðarríkin gjalda þess illilega hve takturinn í efnahagslífi þeirra er ólíkur því sem er hjá stóra bróður í Þýskalandi.

Langt er síðan farið var að reikna út hve mikið samræmi væri í sögulegu samhengi með hagsveiflum í ríkjum ESB-ríkja svo og á Íslandi og í Noregi, þ.e. hversu samhverfar (symmetric) sveiflurnar væru. Útreikningarnir hafa m.a. sýnt tvo mikilvæga þætti hagsveiflunnar, þ.e. viðskiptakjör og hagvöxt. Samræmið reyndist mest hjá kjarnaríkjum evrusvæðis en sveiflur í efnahagslífi Svíþjóðar, Danmerkur og Bretlands reyndust áberandi ósamhverfar miðað við evruríkin. Ísland og Noregur skáru sig þó algerlega úr. Í báðum þessum löndum hafa hagsveiflur reynst í furðulitlu samræmi við hagþróun á evrusvæðinu.

Þetta sýnir að Íslendingar og Norðmenn eiga ekkert erindi inn á evrusvæðið og gætu orðið þar fyrir stóráföllum vegna þess hve efnahagslíf þeirra er í litlum takti við evruríkin. Skýringin er augljós: engin þjóð í ESB er jafn háð sjávarútvegi og við Íslendingar. Stór hluti tekna og útgjalda atvinnulífsins er auk þess í öðrum myntum en evrum. En hjá Norðmönnum er það tvennt, sjávarútvegur og olíuvinnsla, sem veldur því að hagkerfi þeirra sveiflast með allt öðrum hætti en almennt er á evrusvæðinu.

Áróðurinn fyrir upptöku evru er af pólitískum rótum runninn jafnt hér á landi sem á meginlandinu og byggist ekki á hagfræðilegum rökum. Evrunni var óspart beitt sem tálbeitu til að lokka þjóðir inn í ESB. Þessa mánuðina sér þó fólk það svart á hvítu, hvílíkir ókostir fylgja því að reyna með sameiginlegum gjaldmiðli að tengja saman ólík hagkerfi sem eru mjög misjafnlega á vegi stödd. Sú tilraun er dæmd til að mistakast með skelfilegum afleiðingum eins og nú má sjá í Grikklandi, Írlandi og sennilega bráðum í Portúgal, jafnvel Ítalíu. Þessu hafa Svíar, Danir og Bretar áttað sig á fyrir löngu og eru nú ákveðnari í því en nokkru sinni fyrr að hafna evrunni.

Höfundur á sæti í stjórn Heimssýnar og er fyrrv. ráðherra.