Það er ekki barátta í ESB, það er stríð!

Eftir Bjarna Harðarson

Greinin var birt í Morgunblaðinu 12.06.2013

Á plakati utan á Ólympíuhöllinni í Aþenu gefur að líta þrjá menn í sundbolum og sá í miðið heldur vinalega um axlir hinna. Þetta eru kunnugleg andlit því lengst til vinstri er þýski hagfræðingurinn Karl Marx, þá Lenín og lengst til vinstri Trotský. Sá fyrstnefndi svoldið vantrúaður á svipinn eins og hann viti að fólk verði hugmyndafræði hans aldrei samboðið en Lenín að vanda eins og skeggjuð unglingsstelpa sem veit að allir eru svoldið skotnir. Trotský smeygir handlegg undir holöndina hjá þessari miðjustelpu en augnaráðið er flóttalegt eins og hann viti þau örlög sín að verða drepinn í þágu hugsjónanna.

Myndin er óskýr og ekki nema í meðallagi vel fölsuð með gamaldags skærum frekar en tölvuforriti. En hún passar giska vel inn í það andrúmsloft vinstri stefnu sem ríkir í yfirgefnu ólympíuþorpi í höfuðborg Grikklands. Hingað hafa hópar vinstri manna, grísk launþegasamtök, stjórnmálaflokkar og grasrótarhreyfingar efnt til ráðstefnu gegn niðurskurðarstefnu ESB og peningastefnu ESB, AGS og Evrópska Seðlabankans, Troikunni svokölluðu en hugtakið er rússneskt að uppruna og merkir einfaldlega þrenningin. Um 200 fundarboðendur stóðu að ráðstefnunni og fundargestir störfuðu í tvo daga í fjölmörgum hópum þar sem rætt var um efnahagsvandann út frá hagsmunum almennings. Meðal þátttakenda voru samtök andstæðinga ESB aðildar á Norðurlöndunum og Heimssýn á Íslandi sendi tvo áheyrnarfulltrúa. 

Banksterar fá ríkisaðstoð en ekki krabbameinssjúklingar

„Hvaða valdhafar láta eigendur banka sem hafa farið á hausinn fá peninga til þess að þeir geti haldið áfram en greiða ekki fyrir því að krabbameinssjúklingar fái nauðsynleg lyf og heilbrigðisþjónustu.“

Það er rómversk hjúkrunarkona í pontu þegar blaðamaður gengur inn í málstofu um heilbrigðismál. Henni er einnig mikið niðri fyrir vegna þess sem hún sér daglega í ítalskri heilsugæslu.:

„Einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar hefur ekki heilsugæslu að markmiði heldur peningaþvætti þar sem stjórnmálamenn, mafían og aðrir óprúttnir aðilar ná undir sig peningum og skipta á milli sín.“

Róttækir sósíalistar sem taka til máls benda á að baráttan fyrir réttlæti og rétti almennings til heilsugæslu vinnist ekki nema með stéttabaráttu og afnámi kapítalismans. Aðrir vilja fara sér hægar og koma með tillögur um undirskriftasafnanir gegn ríkjandi tilskipunum ESB sem og að vinstri menn noti vettvang Evrópuþingsins til áhrifa.

Helmingur án heilsugæslu

„Heilbrigðiskerfið hjá okkur var kannski ekki það besta í heimi en það tryggði ákveðin réttindi. Þessi réttindi hafa nú verið afnumin og allt að 60% íbúa eru án þeirra réttinda að geta fengið læknisaðstoð,“ segir fulltrúi frá samtökum opinberra starfsmanna í Grikklandi. Bretinn Fred sem kemur frá sjálfboðaliðasamtökum þar í landi lýsir því hvernig hann hafi með félögum sínum úr hópi heilbrigðisstarfsfólks unnið að söfnun lyfja sem send eru þurfandi í Grikklandi.

Hann og hin franskættaða Fabina eru samdóma um að nú á þremur árum hefur félagsleg staða og heilbrigðisþjónusta í álfunni færst áratugi aftur á bak vegna niðurskurðar, einkavæðingar og tilskipana ESB.

„Það er ekki lengur bara barátta fyrir réttindum sem við stöndum frammi fyrir. Troikan, hægri öfgahópar og þjónkun stjórnvalda við þessi öfl, hafa boðað stríð,“ segir Fabian undir dynjandi lófaklappi.

Það eru ekki allir kettirnir gráir

Í málstofu um vaxandi gengi fasistahreyfinga í Evrópu taka ræðumenn upp máltæki sem einn frummælanda kastar fram; það eru ekki kettirnir gráir. Andlit fasismans eru mörg og baráttan er víðfeðm.

„Við höfum hægri flokka og svo höfum við flokka hægra megin við hægri flokkana og um þá ætlum við sérstaklega að tala hér í dag,“ segir umræðustjórinn og opnar málstofuna fyrir framsögumönnum. Í Grikklandi fékk fasistahreyfingin Hin gullna dögum 7% fylgi og flokkur sem hefur tekið upp öll helstu stefnumál nasista er nú þriðji stærsti flokkur Ungverjalands með næstum fimmtung atkvæða.

„En jafnvel þar sem allt virðist í lagi og við sjáum ekkert að í samfélaginu þrífast samt hugmyndir og áróður sem er hallur undir sömu sjónarmið. Barátta okkar þarf að ná víðar en til sjálfra fasistanna, við þurfum að  berjast gegn þeim sem skapa þeim jarðveg,“ segir stjórnmálakempan Jan Kavan, þingmaður og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Tékka en áður andófsmaður í Tékkóslóvakíu allt frá vorinu í Prag. „Við erum í öllum löndum með hægri lýðskrumara sem skapa aðstæður fyrir ábyrgðarlaus stjórnmál, efnahagshrun og vandræði sem síðan byggir upp jarðveg fyrir fasismann. Það eru ekki allir kettirnir gráir!“

Aðrir ræðumenn taka boltann þar sem Kavan sleppir honum og benda á nauðsyn þess að hafa áhrif á umræðu og hugmyndir almennings þannig að það sé ekki akur fyrir fasismann meðal almennings. En blóðug niðurskurðarstefna sem og ólýðræðislegir stjórnarhættir ESB og stjórnvalda heima fyrir skapa því miður akur fyrir hægri sinnaða þjóðernishyggju og öfga. Baráttan gegn þessari getur aldrei komið að ofan, hún verður að koma frá grasrótinni.

Gagnrýni en ekki bein andstaða við ESB

Evrópskir vinstri menn færa á Alter summit fram harða gagnrýni á ESB og efnahagsstefnu þess. Einn fundarmanna bendir á að ef sambandið hefði farið eftir vilja fólksins og lagt Lisabonsáttmálann á hilluna væri ástandið mun betra því þá hefði Brusselvaldið ekki haft jafn mikinn íhlutunarrétt í garð aðildarríkja.

Grískir trotskíistar sem eru hér áberandi tala um að leggja Evrópusambandið niður en byggja upp á rústum þess enn stærra ríki kommúnisma sem næði yfir öll lönd Miðausturlanda og Norður Afríki. Byltingin á öllu þessu svæði sé rétt handan við hornið.

Gagnrýni hófsamari vinstri manna á ESB gengur lengra hér en áður hefur heyrst. Þeir eru hér á pari við ýmsa sem teljast innan ESB í flokki efasemdarmanna og þykir ekki góður félagsskapur í háborginni Brussel. Það vekur athygli að sjá að í myndbandasafni Alter summit er birt ræða Nigel Farage formanns Breska sjálfstæðisflokksins sem hefur opinskátt talað gegn tilvist ESB. En slík orðræða er vitaskuld eldfim þar sem stefnt er saman verkalýðshreyfingum og stjórnmálasamtökum sem eiga það eitt sameiginlegt að vera gagnrýnin á svokallaða nýfrjálshyggju Troikunnar.