Þingmaður hótar Bændasamtökum Íslands vegna stuðnings við Heimssýn

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hótar Bændasamtökum Íslands vegna stuðnings samtakanna við Heimssýn. Hún telur tímabært að ,,endurskoða hin opinber framlög til Bændasamtakanna, á grundvelli úttektar á fjárreiðum samtakanna”, eins og segir orðrétt á bloggsíðu þingmannsins. Minnir þessi aðferðafræði þingmannsins óneitanlega á málflutning og aðferðir í einræðisríkjum þar sem ráðandi öfl ráðast gegn frjálsum félagasamtökum vegna skoðanna þeirra.

Bændasamtökin hljóta að skoða hvort rétt sé að krefjast afsökunar af hendi þingsmannsins vegna hótana og dylgja um fjárreiður samtakanna. Jafnframt er það alvarlegt að þingmaður á Alþingi komi þannig upp um þekkingarleysi sitt á fjárlögum og eftirlits með þeim sem Ríkisendurskoðun sér um. Í þessu sambandi má benda á að í gildi er svokallaður búnaðarlagasamningur sem stjórnvöld hafa gert við Bændasamtök Íslands um tiltekin verkefni sem ríkisvaldið hefur falið Bændasamtökunum og búnaðarsamböndunum á landsbyggðinni. Þá má benda á að ríkið hyggst skerða búnaðarlagasamninginn um 40% á næsta ári, samkvæmt nýlegu samkomulagi stjórnvalda við Bændasamtökin. Sjá nánar frétt á heimasíðu Bændasamtakanna. Í ár hafði hann verið lækkaður um 20%. Það er ljóst á orðum Ólínu Þorvarðardóttur að hún vill ganga enn harðar gegn samtökum bænda.